YouVersion Logo
Search Icon

Fyrra Pétursbréf 4

4
Þjónið hvert öðru
1Kristur leið líkamlega. Því skuluð þið búast sama hugarfari og hann. Sá sem hefur liðið líkamlega er skilinn við synd. 2Hann lætur ekki mannlegar fýsnir ná tökum á sér heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs. 3Nógu lengi hafið þið samið ykkur að háttum heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun. 4Nú furðar þá að þið hlaupið ekki með þeim út í sama spillingardíki og þeir hallmæla ykkur. 5En þeir verða að gera reikningsskil þeim sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða. 6Því að dauðum var boðað fagnaðarerindið til þess að þeir, þótt dæmdir hefðu verið sem menn á jörðu, mættu lifa andlegu lífi hjá Guði.
7En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. 8Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. 9Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. 10Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. 11Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
Að taka þátt í píslum Krists
12Þið elskuðu, látið ykkur ekki undra eldraunina, sem yfir ykkur er komin, eins og eitthvað áður óþekkt hendi ykkur. 13Gleðjist heldur er þið takið þátt í píslum Krists til þess að þið megið einnig gleðjast og fyllast fögnuði þegar dýrð hans birtist. 14Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists. Andi dýrðarinnar, andi Guðs, hvílir þá yfir ykkur. 15Ekkert ykkar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það er öðrum kemur við. 16En ef einhver líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki heldur vegsami Guð fyrir að bera nafn Krists.
17Því að nú er kominn tími dómsins og hann byrjar á húsi Guðs. En ef hann byrjar á okkur, hver verða þá afdrif þeirra sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs?
18Ef hinn réttláti naumlega frelsast,
hvað verður þá um hinn óguðlega og syndarann?
19Þess vegna skulu þau sem líða í hlýðni við Guðs vilja fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gera hið góða.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in