Sakaría 9
9
Gegn þjóðunum
1Spádómur.
Orð Drottins mun dveljast í Hadraklandi
og Damaskus því að sjónir allra manna hvíla á Drottni
eins og augu Ísraels ætta.
2Einnig í Hamat, sem er þar nærri,
og í Týrus og Sídon því að þar er gnægð visku.
3Týrus reisti sér vígi
og hrúgaði upp silfri rétt eins og mold,
og gulli eins og for af strætum.
4En Drottinn mun svipta hana eigum sínum
og varpa herstyrk hennar í hafið
og sjálf mun hún verða eldi að bráð.
5Það mun Askalon sjá og óttast
en Gasa riða af skelfingu
og einnig Ekron er von hennar snýst í blygðun.
Konungslaus verður Gasa
og Askalon óbyggð,
6þjóðablanda mun búa í Asdód
og ég bind enda á yfirlæti Filistea.
7Ég hreinsa blóðið úr munni þeirra
og viðurstyggðina undan tönnum þeirra.
Þeir sem eftir verða munu þá heyra til Guði vorum.
Þeir verða eins og ættarhöfðingjar í Júda
og Ekronmenn sem íbúar Jebús.
8Ég slæ vörn um hús mitt
eins og gegn herliði
sem fram hjá fer eða aftur snýr.
Enginn kúgari mun framar troða þá fótum
því að nú hef ég sjálfur séð þjáningar þeirra.
Friðarhöfðinginn
9Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
10Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu#9.10 Þ.e. Efrat. til endimarka jarðar.
Frelsun bandingjanna
11En vegna blóðs sáttmála þíns
læt ég fanga þína lausa
úr gryfjunni vatnslausu.
12Snúið aftur til vígisins trausta,
þér vongóðu bandingjar.
Í dag er boðað:
Ég endurgeld þér tvöfalt.
13Ég spenni Júda eins og boga,
fylli Efraím sem örvamæli,
vek upp syni þína, Síon,
gegn Javans niðjum#9.13 Þ.e. Grikkjum.
og geri úr þér sverð í garps hendi.
14Yfir þeim birtist Drottinn,
örvar hans fljúga sem eldingar.
Drottinn Guð þeytir hornið,
hann fer með fellibyljum Suðurlandsins.
15Drottinn allsherjar verður þeim skjöldur.
Þeir munu sigra þá og troða slöngvusteina þeirra undir fótum,
þeir drekka og hafa hátt sem drukknir menn,
flóa yfir eins og fórnarskálar,
dreyrastokknir sem altarishorn.
16Á þeim degi mun Drottinn, Guð þeirra, bjarga þeim
sem hjörð þjóðar sinnar
því að þeir eru sem glitrandi krúnusteinar yfir landi hans.
17Hvílíkt er ágæti þess, hvílík fegurð þess.
Kornið fjörgar æskumenn
og vínið yngismeyjar.
Currently Selected:
Sakaría 9: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007