Sakaría 11
11
1Ljúk upp hliðum þínum, Líbanon,
svo að eldurinn geti eytt sedrustrjám þínum.
2Kveina, kýprusviður,
nú er sedrustréð fallið.
Barmið yður, eikur Basans, burtu er skógurinn mikli.
3Heyr kveinstafi smalanna.
Sæmd þeirra er að engu orðin.
Heyr öskur ljónshvolpanna.
Skógarnir við Jórdan eru gereyddir.
Tvenns konar hirðar
4Svo sagði Drottinn, Guð minn: Þú skalt gæta sláturfjárins. 5Kaupendur þess slátra óáreittir og seljendur þess segja: „Lof sé Drottni, ég er orðinn ríkur,“ en hirðar þeirra vægja fénu ekki. 6Því að nú vægi ég ekki framar íbúum þessa lands, segir Drottinn, ég framsel mennina hvern í annars hendur og undir náð konungs þeirra. Þeir munu eyða landið en engan mun ég frelsa úr höndum þeirra.
7Þá gætti ég sláturfjárins fyrir fjárkaupmennina. Ég tók mér tvo stafi, kallaði annan Hylli en hinn Sameiningu. Hélt ég síðan áfram að sinna fénu 8og gerði þrjá hirða óþarfa á einum mánuði. Ég fékk óbeit á fénu og það fékk einnig óbeit á mér. 9Og ég sagði: „Ég gæti ykkar ekki. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill og það sem þá verður eftir eti hvað annars hold.“ 10Síðan tók ég staf minn Hylli og braut hann til að rjúfa sáttmálann sem ég hafði gert við allar þjóðir. 11Og á þeim degi var sáttmálinn rofinn og fjárkaupmennirnir sáu það og vissu að þetta var orð Drottins. 12Og ég sagði við þá: „Séuð þið ánægðir, greiðið mér þá laun mín en látið það vera að öðrum kosti.“ Og þeir vógu mér þrjátíu sikla af silfri í laun. 13En Drottinn sagði við mig: Varpaðu því í sjóðinn, þessu háa verði sem þeir hafa metið mig til. Og ég tók silfursiklana þrjátíu og varpaði þeim í sjóðinn í musteri Drottins.
14Þá braut ég hinn stafinn, Sameiningu, til þess að rjúfa bræðralagið milli Júda og Ísraels. 15Og Drottinn sagði við mig: Taktu þér verkfæri sem hæfa heimskum hirði 16því að sjálfur ætla ég að láta koma fram í landinu hirði sem sinnir ekki því sem týnst hefur, leitar ekki þess sem villst hefur, græðir ekki það sem meiðst hefur, annast ekki það sem heilbrigt er heldur etur kjötið af feitu gripunum og rífur af þeim klaufirnar.
17Vei þeim ónýta hirði
sem yfirgefur hjörðina.
Megi sverðið ríða á handlegg hans
og hægra auga.
Handleggur hans mun visna upp
og hægra auga hans blindast með öllu.
Currently Selected:
Sakaría 11: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007