YouVersion Logo
Search Icon

Sálmarnir 119

119
1Sælir eru grandvarir,
þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2Sælir eru þeir er halda boð hans
og leita hans af öllu hjarta,
3eigi fremja ranglæti
en ganga á vegum hans.
4Þú hefur gefið skipanir þínar
til þess að þeim skuli hlýtt í hvívetna.
5Ó, að breytni mín mætti vera staðföst
svo að ég varðveiti lög þín.
6Þá verð ég ekki til skammar
er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7Ég skal þakka þér af einlægu hjarta
er ég hef numið þín réttlátu ákvæði.
8Ég vil gæta laga þinna,
yfirgef mig aldrei.
2
9Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?
Með því að gefa gaum að orði þínu.
10Ég leita þín af öllu hjarta,
lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11Ég geymi orð þín í hjarta mínu
svo að ég syndgi ekki gegn þér.
12Lofaður sért þú, Drottinn,
kenn mér lög þín.
13Með vörum mínum tel ég upp
öll ákvæði munns þíns.
14Ég gleðst yfir vegi laga þinna
eins og yfir gnótt auðæfa.
15Ég vil íhuga fyrirmæli þín
og gefa gaum að vegum þínum.
16Ég leita unaðar í lögmáli þínu,
gleymi eigi orði þínu.
3
17Ger vel til þjóns þíns svo að ég lifi
og megi halda orð þín.
18Ljúk upp augum mínum svo að ég sjái
dásemdirnar í lögmáli þínu.
19Ég er gestur á jörðinni,
dyl eigi boð þín fyrir mér.
20Ég tærist sífellt af þrá
eftir ákvæðum laga þinna.
21Þú hefur ógnað hrokafullum,
þeim bölvuðu sem víkja frá boðum þínum.
22Léttu af mér háðung og skömm
því að ég hef haldið fyrirmæli þín.
23Þótt höfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér
íhugar þjónn þinn lög þín.
24Já, fyrirmæli þín eru unun mín,
boð þín ráðgjafar mínir.
4
25Sál mín loðir við duftið,
lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26Ég sagði þér frá breytni minni og þú svaraðir mér,
kenn mér lög þín.
27Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna,
að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28Sál mín tárast af trega,
reis mig upp eins og þú hefur heitið.
29Lát veg lyginnar vera fjarri mér
og kenn mér af gæsku þinni.
30Ég hef valið veg sannleikans
og hef ákvæði þín fyrir augum.
31Ég held fast við fyrirmæli þín,
Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32Ég vil skunda veg boða þinna
því að þú hefur dýpkað skilning minn.
5
33Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna
og ég mun fylgja honum allt til enda.
34Veit mér skilning til að halda lögmál þitt
og varðveita það af öllu hjarta.
35Leið mig götu boða þinna,
af henni hef ég yndi.
36Hneig hjarta mitt að fyrirmælum þínum
en ekki að illa fengnum gróða.
37Snú augum mínum frá hégóma,
veit mér líf á vegum þínum.
38Efn heit þitt við þjón þinn
svo að ég megi óttast þig.
39Nem burt háðungina sem ég skelfist
því að ákvæði þín eru góð.
40Sjá, ég þrái fyrirmæli þín,
lífga mig með réttlæti þínu.
6
41Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn,
hjálpræði þitt samkvæmt fyrirheiti þínu,
42svo að ég megi svara þeim sem smána mig
því að ég treysti orði þínu.
43Tak ekki orð sannleikans úr munni mér
því að ég setti von mína á dóma þína.
44Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt
um aldur og ævi.
45Ég mun ganga um víðlendi
því að ég leita fyrirmæla þinna.
46Ég mun vitna um boð þín frammi fyrir konungum
og eigi fyrirverða mig.
47Ég finn unað í boðum þínum,
þeim er ég elska.
48Ég rétti út hendurnar móti boðum þínum,
þeim er ég elska,
og íhuga lög þín.
7
49Minnstu þess orðs við þjón þinn
sem þú gafst mér að vona á,
50það er huggun mín í eymd minni
að orð þitt lætur mig lífi halda.
51Þeir hrokafullu spotta mig ákaflega
en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52Ég minnist boða þinna frá öndverðu, Drottinn,
og læt huggast.
53Ofsareiði við óguðlega grípur mig,
við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54Lög þín eru efni ljóða minna
í því húsi sem ég gisti.
55Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn,
því að ég vil halda lög þín.
56Það hefur hlotnast mér
að fylgja fyrirmælum þínum.
8
57Drottinn er hlutskipti mitt,
ég hef heitið að halda boð þín.
58Ég ákalla þig af öllu hjarta,
vertu mér náðugur eins og þú hefur heitið.
59Ég hef hugað að vegum mínum
og beint skrefum mínum að fyrirmælum þínum.
60Ég hef flýtt mér og eigi tafið
að hlýða boðum þínum.
61Snörur óguðlegra lykja um mig
en ég gleymi ekki lögmáli þínu.
62Um miðnætti rís ég upp til að þakka þér
réttlát ákvæði þín.
63Ég er vinur allra sem óttast þig
og halda fyrirmæli þín.
64Drottinn, jörðin er full af miskunn þinni,
kenn mér lög þín.
9
65Þú hefur gert vel til þjóns þíns
eftir orði þínu, Drottinn.
66Veit mér dómgreind og þekkingu
því að ég treysti boðum þínum.
67Áður en ég varð auðmjúkur villtist ég
en nú varðveiti ég orð þitt.
68Þú ert góður og gerir vel,
kenn mér lög þín.
69Hrokafullir spinna upp lygar gegn mér
en ég fylgi boðum þínum af öllu hjarta.
70Hjarta þeirra er sljótt og feitt
en ég hef yndi af lögmáli þínu.
71Það varð mér til góðs að ég var beygður
svo að ég gæti lært lög þín.
72Lögmálið úr munni þínum er mér mætara
en þúsundir skildinga úr silfri og gulli.
10
73Hendur þínar sköpuðu mig og mótuðu,
veit mér skilning til að læra boð þín.
74Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast
því að ég vona á orð þitt.
75Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir,
að þú auðmýktir mig í trúfesti þinni.
76Lát náð þína verða mér til huggunar
eins og þú hefur heitið þjóni þínum.
77Sendu mér miskunn þína, að ég megi lifa,
því að lögmál þitt er unun mín.
78Lát hrokagikkina verða til skammar
sem þjaka mig að ósekju
en ég íhuga fyrirmæli þín.
79Þeir snúi sér til mín sem óttast þig
og þekkja fyrirmæli þín.
80Gef mér að fylgja lögum þínum af heilu hjarta
svo að ég verði eigi til skammar.
11
81Sál mín tærist af þrá eftir hjálp þinni,
ég bíð eftir orði þínu,
82augu mín daprast af þrá eftir orði þínu:
Hvenær munt þú hugga mig?
83Ég er orðinn eins og skorpinn vínbelgur
en lögum þínum hef ég eigi gleymt.
84Hve margir eru dagar þjóns þíns?
Hvenær kveður þú upp dóm yfir ofsækjendum mínum?
85Hrokafullir grófu mér grafir,
þeir hlýða ekki lögum þínum.
86Öll boð þín eru áreiðanleg,
menn ofsækja mig með lygum,
veit mér lið!
87Við lá að þeir afmáðu mig af jörðinni
en ég vék ekki frá fyrirmælum þínum.
88Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar,
að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
12
89Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu,
það stendur stöðugt á himnum.
90Frá kyni til kyns varir trúfesti þín,
þú hefur grundvallað jörðina og hún stendur.
91Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag
því að allt lýtur þér.
92Væru lög þín ekki gleði mín
hefði ég farist í eymd minni.
93Ég skal aldrei gleyma fyrirmælum þínum
því að með þeim hefur þú látið mig lífi halda.
94Þinn er ég, bjarga mér
því að ég leita fyrirmæla þinna.
95Óguðlegir sitja fyrir mér
en ég gef gaum að reglum þínum.
96Ég hef séð takmörk á allri fullkomnun
en boð þín eiga sér engin takmörk.
13
97Hve mjög elska ég lögmál þitt,
allan daginn íhuga ég það.
98Boð þín hafa gert mig vitrari en óvini mína
því að þau hef ég ætíð hjá mér.
99Ég er hyggnari en allir kennarar mínir
því að ég íhuga reglur þínar.
100Ég er skynsamari en öldungar
því að ég held fyrirmæli þín.
101Ég forða fæti mínum frá hverjum vondum vegi
því að ég fylgi orði þínu.
102Ég vík eigi frá reglum þínum
því að þú hefur kennt mér.
103Hve sæt eru fyrirheit þín gómi mínum,
hunangi betri munni mínum.
104Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn,
þess vegna hata ég sérhvern lygaveg.
14
105Þitt orð er lampi fóta minna
og ljós á vegum mínum.
106Ég hef svarið og haldið það
að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107Ég er mjög beygður, Drottinn,
lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108Drottinn, tak með velþóknun við gjöfum munns míns
og kenn mér ákvæði þín.
109Líf mitt er ætíð í hættu
en ég hef ekki gleymt lögmáli þínu.
110Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig
en ég hef ekki villst frá fyrirmælum þínum.
111Fyrirmæli þín eru hlutskipti mitt um aldur
því að þau gleðja hjarta mitt.
112Ég hef hneigt hjarta mitt að því að hlýða boðum þínum
um aldur og allt til enda.
15
113Ég hata tvílráða menn
en lögmál þitt elska ég.
114Þú ert skjól mitt og skjöldur,
ég vona á orð þitt.
115Víkið frá mér, illgjörðamenn,
að ég megi halda boð Guðs míns.
116Styð mig með orði þínu, að ég megi lifa,
og lát von mína eigi verða til skammar.
117Styð mig, að ég megi frelsast
og ætíð gefa gaum að lögum þínum.
118Þú hafnar öllum sem villast frá lögum þínum
því að svik þeirra eru til einskis.
119Þú metur sem sorp alla óguðlega,
þess vegna elska ég fyrirmæli þín.
120Ég nötra af hræðslu við þig
og skelfist dóma þína.
16
121Ég hef iðkað rétt og réttlæti,
sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
122Tryggðu þjóni þínum velfarnað,
lát eigi ofstopamennina kúga mig.
123Augu mín daprast af þrá eftir hjálp þinni
og réttlátu fyrirheiti þínu.
124Far með þjón þinn eftir miskunn þinni
og kenn mér lög þín.
125Ég er þjónn þinn, veit mér skilning
til að þekkja reglur þínar.
126Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana,
þeir hafa rofið lögmál þitt.
127Þess vegna elska ég boð þín
meira en gull, já skíragull.
128Þess vegna fylgi ég öllum fyrirmælum þínum af kostgæfni
og hata sérhvern lygaveg.
17
129Undursamleg eru fyrirmæli þín,
þess vegna held ég þau.
130Þegar orð þín ljúkast upp ljóma þau
og gera fávísa vitra.
131Ég opna munn minn af áfergju
því að ég þrái boð þín.
132Snú þér til mín og ver mér náðugur
eins og þeim er ætlað sem elska nafn þitt.
133Ger skref mín örugg með fyrirheiti þínu
og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.
134Leys mig undan kúgun manna,
að ég megi halda fyrirmæli þín.
135Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn
og kenn mér lög þín.
136Augu mín flóa í tárum
af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.
18
137Réttlátur ert þú, Drottinn,
og réttmætir eru dómar þínir.
138Þú hefur sett lög þín af réttlæti
og mikilli trúfesti.
139Ákafi minn tærir mig
því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
140Orð þitt er hreint og tært
og þjónn þinn elskar það.
141Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn
en fyrirmælum þínum hef ég eigi gleymt.
142Réttlæti þitt er eilíft réttlæti
og lögmál þitt sannleikur.
143Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið,
boð þín eru unun mín.
144Fyrirmæli þín eru rétt um eilífð,
veit mér skilning svo að ég megi lifa.
19
145Ég hrópa af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn,
ég vil halda lög þín.
146Ég ákalla þig, hjálpa þú mér,
að ég megi varðveita fyrirmæli þín.
147Ég er á ferli fyrir dögun, hrópa
og bíð orða þinna.
148Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul
og ég íhuga orð þitt.
149Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni,
lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150Fláráðir ofsækjendur mínir eru nærri,
þeir eru fjarri lögmáli þínu.
151Þú ert nálægur, Drottinn,
og öll boð þín eru sannleikur.
152Fyrir löngu hef ég vitað um reglur þínar;
þú settir þær, að þær giltu um eilífð.
20
153Sjá eymd mína og frelsa mig
því að ég hef eigi gleymt lögmáli þínu.
154Flyt þú mál mitt og bjarga mér,
lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155Hjálpræðið er fjarri óguðlegum
því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156Mikil er miskunn þín, Drottinn,
lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157Margir ofsækja mig og þrengja að mér,
ég hef ekki vikið frá fyrirmælum þínum.
158Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs;
þeir varðveita eigi orð þitt.
159Sjá, hve ég elska fyrirmæli þín,
lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160Sérhvert orð þitt er satt
og réttlætisákvæði þín vara að eilífu.
21
161Höfðingjar ofsækja mig að tilefnislausu
en hjarta mitt óttast orð þitt.
162Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu
eins og sá er fær mikið herfang.
163Lygi hata ég og fyrirlít
en lögmál þitt elska ég.
164Sjö sinnum á dag lofa ég þig
fyrir réttlát ákvæði þín.
165Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt
og þeim er við engri hrösun hætt.
166Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn,
og fer að boðum þínum.
167Ég fylgi fyrirmælum þínum
og elska þau mjög.
168Ég held boð þín og fyrirmæli
og allir vegir mínir eru þér kunnir.
22
169Hróp mitt nálgist auglit þitt, Drottinn,
veit mér skilning samkvæmt orði þínu.
170Grátbeiðni mín komi fyrir auglit þitt,
frelsa mig eins og þú hefur heitið.
171Lofsöngur streymi af vörum mínum
því að þú kennir mér lög þín,
172tunga mín syngi orði þínu lof
því að öll boð þín eru réttlát.
173Hönd þín veiti mér lið
því að ég kaus fyrirmæli þín.
174Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn,
og lögmál þitt er unun mín.
175Gef mér að lifa að ég lofi þig
og reglur þínar veiti mér lið.
176Ég villist eins og týndur sauður,
leita þú þjóns þíns
því að ég hef ekki gleymt boðum þínum.

Currently Selected:

Sálmarnir 119: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in