Matteusarguðspjall 10
10
Postular sendir
1Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald til að reka út óhreina anda og lækna hvers kyns sjúkdóm og veikindi. 2Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans, 3Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus, 4Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.
Fyrirmæli
5Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: „Leggið ekki leið yðar til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. 6Farið heldur til týndra sauða af Ísraels ætt. 7Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd. 8Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té. 9Takið ekki gull, silfur né eir í belti, 10eigi mal til ferðar né tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.
11Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um hver þar sé verðugur og þar sé aðsetur yðar uns þér leggið upp að nýju. 12Þegar þér komið í hús þá árnið því góðs 13og sé það verðugt skal friður yðar koma yfir það en sé það ekki verðugt skal friður yðar aftur hverfa til yðar. 14Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. 15Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.
Varið yður
16Ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur. 17Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. 18Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, til þess að bera vitni um mig fyrir þeim og heiðingjunum. 19En þá er menn draga yður fyrir rétt skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu hvað segja skal. 20Það eruð ekki þér sem talið heldur talar andi föður yðar í yður.
21Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 22Allir munu hata yður af því að þér trúið á mig. En sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast. 23Þegar menn ofsækja yður í einni borg þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels áður en Mannssonurinn kemur.
24Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum. 25Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst menn kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?
Hvern ber að hræðast?
26Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert, né leynt er eigi verður kunnugt. 27Það sem ég segi yður í myrkri skuluð þér tala í birtu og það sem þér heyrið hvíslað í eyra skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. 28Hræðist ekki þá sem líkamann deyða en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. 29Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar#10.29 Orðrétt: án föður yðar, sbr. Lúk 12.6. föður yðar. 30Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. 31Verið því óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar.
Að kannast við Krist
32Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. 33En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.
Barátta
34Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. 35Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. 36Og heimamenn manns verða óvinir hans.
37Sá sem ann föður eða móður meir en mér er mín ekki verður og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér er mín ekki verður. 38Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér er mín ekki verður. 39Sá sem ætlar að finna líf sitt týnir því og sá sem týnir lífi sínu mín vegna finnur það.
Laun
40Sá sem tekur við yður tekur við mér og sá sem tekur við mér tekur við þeim er sendi mig. 41Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns. 42Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.“
Currently Selected:
Matteusarguðspjall 10: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007