YouVersion Logo
Search Icon

Jesaja 11

11
Konungur friðarríkisins
1Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta
og sproti vaxa af rótum hans.
2Andi Drottins mun hvíla yfir honum:
andi speki og skilnings,
andi visku og máttar,
andi þekkingar og guðsótta.
3Guðsóttinn verður styrkur hans.
Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá
og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra.
4Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu
og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.
Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns,
deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.
5Réttlæti verður belti um lendar hans,
trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
6Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra.
7Kýr og birna verða saman á beit,
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,
og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
8Brjóstmylkingurinn mun leika sér
við holu nöðrunnar
og barn, nývanið af brjósti,
stinga hendi inn í bæli höggormsins.
9Enginn mun gera illt,
enginn valda skaða
á mínu heilaga fjalli
því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni
eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Heim úr útlegð
10Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí
standa sem gunnfáni fyrir þjóðirnar
og lýðir munu safnast að honum
og bústaður#11.10 Orðrétt: hvíldarstaður, þ.e. musterið. Drottins verður dýrlegur.
11Á þeim degi mun Drottinn hefja aftur upp hönd sína
til þess að greiða lausnargjald
fyrir leifar þjóðar sinnar sem eftir urðu
í Assýríu, Egyptalandi, Patros og Kús,
í Elam, Sínat og Hamat
og á eyjunum langt úti í hafi.
12Hann mun reisa gunnfána fyrir þjóðirnar
til að safna saman hinum útlægu Ísraelsmönnum
og stefna saman dreifðum íbúum Júda
frá heimshornunum fjórum.
13Þá mun öfund Efraíms hverfa
og fjandskapur Júda dvína.
Efraím mun ekki öfunda Júda
og Júda ekki fjandskapast við Efraím.
14Þá munu þeir steypa sér niður yfir Filistea í vestri
og saman munu þeir ræna þjóðirnar í austri.
Þeir munu hremma Edóm og Móab
og Ammónítar verða að hlýða þeim.
15Drottinn mun þurrka vog Egyptahafs
með glóheitum stormi sínum,
veifa hendi yfir Efratfljót
og kljúfa það í sjö kvíslir
svo að ganga má yfir á ilskóm.
16Þá verður braut frá Assýríu fyrir leifar þjóðar hans
sem eftir urðu
eins og var fyrir Ísraelsmenn
þegar þeir komu frá Egyptalandi.

Currently Selected:

Jesaja 11: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in