YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 35

35
Jakob kemur til Betel
1Guð sagði við Jakob: „Leggðu af stað og farðu til Betel. Þar skaltu setjast að og reisa altari Guði sem birtist þér þegar þú flýðir undan Esaú, bróður þínum.“
2Jakob sagði við fjölskyldu sína og alla sem með honum voru: „Losið ykkur við útlendu goðin sem þið hafið í fórum ykkur, hreinsið ykkur og hafið fataskipti. 3Við skulum leggja af stað og reisa altari þeim Guði sem bænheyrði mig á neyðarstundu og hefur verið með mér á vegferð minni.“ 4Þá létu þeir Jakob fá öll útlendu goðin sem þeir höfðu í fórum sínum og hringana sem þeir höfðu í eyrunum. Jakob gróf það allt undir eikinni við Síkem. 5Því næst lögðu þeir af stað. En mikill ótti kom yfir íbúa nágrannaborganna svo að enginn þorði að veita sonum Jakobs eftirför. 6Og Jakob kom ásamt öllu sínu fólki til Lús, sem nú heitir Betel, í Kanaanslandi. 7Þar reisti hann altari og nefndi staðinn El-Betel því að þar hafði Guð birst honum er hann flýði undan bróður sínum. 8Þar dó Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir sunnan Betel undir eik sem nefnd var Gráteik.
Jakob nefndur Ísrael
9Þegar Jakob var á heimleið frá Mesópótamíu birtist Guð honum aftur og blessaði hann. 10Guð sagði við hann: „Nafn þitt er Jakob en héðan í frá skaltu ekki heita Jakob. Þú skalt heita Ísrael.“ Og hann nefndi hann Ísrael. 11Guð sagði við hann: „Ég er Almáttugur Guð. Vertu frjósamur og auktu kyn þitt. Þjóð skal frá þér koma, já, fjöldi þjóða og þú munt verða ættfaðir konunga. 12Ég mun gefa þér landið sem ég gaf Abraham og Ísak og niðjum þínum mun ég einnig gefa það.“ 13Því næst sté Guð upp frá honum þaðan sem hann talaði við hann.
14Jakob reisti upp merki á þeim stað þar sem Guð hafði talað við hann, merkistein, og dreypti dreypifórn yfir hann og hellti yfir hann olíu. 15Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð hafði talað við hann, Betel.
Rakel deyr
16Þau héldu nú frá Betel og þegar þau nálguðust Efrata#35.16 Þ.e. Betlehem. kom að því að Rakel skyldi verða léttari. Varð fæðingin mjög erfið 17og þegar fæðingarhríðirnar voru sem verstar sagði ljósmóðirin við hana: „Óttast þú ekki því að þú munt eignast annan son.“ 18Er hún var í andarslitrunum, því að fæðingin kostaði hana lífið, nefndi hún hann Benóní#35.18 Benóní: þjáningarsonur minn. en faðir hans nefndi hann Benjamín#35.18 Benjamín: sonur Suðurlandsins (þ.e. hamingjulandsins).
19Þegar Rakel var látin var hún jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem. 20Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Það er legsteinn Rakelar sem hefur staðið þar allt til þessa dags.
21Ísrael hélt áfram og sló tjöldum sínum handan Migdal Eder.
Tólf synir Jakobs og andlát Ísaks
22Eitt sinn meðan Ísrael hafðist við í þessu byggðarlagi fór Rúben og lagðist með Bílu, hjákonu föður síns, og Ísrael komst að því.
Jakob átti tólf syni. 23Synir Leu voru Rúben, frumgetinn sonur Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon. 24Synir Rakelar voru Jósef og Benjamín. 25Synir Bílu, ambáttar Rakelar, voru Dan og Naftalí. 26Synir Silpu, ambáttar Leu, voru Gað og Asser. Þetta voru þeir synir sem Jakobi fæddust í Mesópótamíu.
27Jakob kom til Ísaks, föður síns, í Mamre við Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu búið. 28Ísak náði hundrað og áttatíu ára aldri. 29Þá andaðist hann og safnaðist til feðra sinna, gamall og saddur lífdaga. Esaú og Jakob, synir hans, jörðuðu hann.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in