YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 29

29
Jakob kemur til Labans
1Jakob hélt áfram för sinni og kom til lands austanmanna. 2Þar kom hann skyndilega auga á brunn úti á víðavangi og lágu þrjár sauðahjarðir við brunninn. Þar voru menn vanir að brynna hjörðunum. En stór steinn lá yfir opi brunnsins. 3Þegar öllum hjörðunum hafði verið safnað þar saman var steininum velt frá brunnopinu og fénu brynnt. Síðan var steininum aftur komið fyrir á sínum stað yfir opinu.
4„Kæru bræður, hvaðan eruð þið?“ spurði Jakob hjarðmennina og þeir svöruðu: „Við erum frá Harran.“ 5Þá spurði hann: „Þekkið þið Laban Nahorsson?“ Þeir játuðu því. 6„Hvernig líður honum?“ spurði hann. „Honum líður vel,“ svöruðu þeir, „og þarna kemur Rakel, dóttir hans, með hjörðina.“ 7Jakob sagði: „Enn er ekki langt liðið á daginn og ekki tímabært að safna fénu saman. Brynnið fénu og rekið það aftur á beit.“ 8Þeir neituðu því og sögðu: „Við getum það ekki fyrr en öllum hjörðunum hefur verið safnað saman og steininum velt frá brunnopinu. Þá skulum við brynna fénu.“
9Jakob var enn á tali við þá er Rakel kom með hjörð föður síns sem hún gætti. 10Þegar Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, koma með fé Labans gekk hann að brunninum, velti steininum frá og brynnti þar fé Labans móðurbróður síns. 11Síðan kyssti Jakob Rakel og brast í grát. 12Hann sagðist vera frændi föður hennar og sonur Rebekku. Hún hljóp þá af stað og sagði föður sínum þetta. 13Þegar Laban heyrði tíðindin af Jakobi, systursyni sínum, flýtti hann sér til hans, faðmaði hann og kyssti og bauð honum heim með sér. Jakob skýrði honum þar frá öllu því sem gerst hafði 14og Laban svaraði: „Sannarlega ert þú hold mitt og bein.“ Jakob dvaldist síðan hjá honum einn mánuð.
Jakob kvænist Leu og Rakel
15Eitt sinn sagði Laban við Jakob: „Ekki er þér ætlað að vinna fyrir mig kauplaust þó að þú sért frændi minn. Segðu mér hvað þú vilt fá í laun?“ 16En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea en sú yngri Rakel. 17Lea var daufeygð#29.17 Önnur hugsanleg þýðing: Lea hafði falleg augu. en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum. 18Jakob elskaði Rakel og því sagði hann: „Ég skal vinna fyrir þig í sjö ár til að eignast Rakel, yngri dóttur þína.“ 19Laban svaraði: „Það er betra að ég gefi þér hana en einhverjum öðrum manni. Vertu kyrr hjá mér.“ 20Síðan vann Jakob í sjö ár til að eignast Rakel og fannst honum sem það væru aðeins fáeinir dagar vegna þess að hann elskaði hana.
21Jakob sagði við Laban: „Gefðu mér nú konu mína. Tíminn er liðinn, leyfðu mér að ganga inn til hennar.“ 22Laban bauð þá til veislu öllum þeim sem á staðnum voru. 23En um kvöldið tók hann Leu, dóttur sína, og leiddi hana inn til Jakobs sem lagðist með henni. 24Og Laban gaf Leu, dóttur sinni, Silpu, ambátt sína, til að hún þjónaði henni. 25Um morguninn varð Jakob þess var að þetta var Lea og hann sagði við Laban: „Hvers vegna gerðirðu mér þetta? Hef ég ekki verið að vinna fyrir Rakel hjá þér? Hvers vegna hefurðu svikið mig?“ 26Laban svaraði: „Það er ekki venja hér að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri. 27Haltu nú brúðkaupsvikuna út, þá munum við gefa þér hina dótturina líka fyrir þá vinnu sem þú innir af hendi næstu sjö árin.“ 28Jakob féllst á þetta og hélt út brúðkaupsvikuna með Leu. Síðan gaf Laban honum Rakel fyrir eiginkonu. 29Laban gaf Rakel, dóttur sinni, Bílu, ambátt sína, til að hún þjónaði henni. 30Jakob lagðist nú einnig með Rakel og hann elskaði hana meira en Leu. Hann vann síðan önnur sjö ár hjá Laban.
Börn Jakobs
31Þegar Drottinn sá að Lea naut ekki ástar þá gerði hann hana frjósama#29.31 Orðrétt: opnaði hann móðurlíf hennar. en Rakel var ófrjósöm. 32Og Lea varð þunguð og fæddi son sem hún nefndi Rúben því að hún sagði: „Drottinn hefur séð neyð mína og nú mun eiginmaður minn elska mig.“ 33Hún varð þunguð öðru sinni og fæddi son. Þá sagði hún: „Drottinn hefur heyrt að ég naut ekki ástar. Þess vegna hefur hann einnig gefið mér þennan son.“ Og hún nefndi hann Símeon. 34Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: „Nú verður eiginmaður minn elskari að mér því að ég hef fætt honum þrjá syni.“ Þess vegna nefndi hún hann Leví. 35Enn á ný varð hún þunguð og ól son og sagði: „Nú vil ég lofa Drottin.“ Þess vegna nefndi hún hann Júda. Eftir það eignaðist hún ekki fleiri börn.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in