YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 28

28
1Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann og bauð honum og sagði: „Þú skalt ekki taka þér konu af dætrum Kanverja. 2Taktu þig upp og farðu til Mesópótamíu, í hús Betúels, móðurföður þíns. Taktu þér konu þaðan, af dætrum Labans, móðurbróður þíns. 3Alvaldur Guð blessi þig og geri þig frjósaman og margfaldi þig. Og þú munt verða að fjölda þjóða. 4Hann mun veita þér og niðjum þínum blessun Abrahams og þú munt eignast landið þar sem þú býrð nú sem landlaus útlendingur, landið sem Guð gaf Abraham.“
5Og Ísak sendi Jakob af stað og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú.
6Nú sá Esaú að Ísak blessaði Jakob og sendi hann af stað til Mesópótamíu til þess að taka sér þar konu. Ísak blessaði hann, bauð honum og sagði: „Taktu þér ekki konu af dætrum Kanverja.“ 7Hann sá að Jakob hlýðnaðist föður sínum og móður og fór til Mesópótamíu. 8Þá skildi Esaú að dætur Kanverja voru andstyggð í augum Ísaks, föður hans. 9Hann fór því til Ísmaels og tók sér Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, fyrir konu, auk þeirra kvenna sem hann átti fyrir.
Draumur Jakobs
10Nú fór Jakob á brott frá Beerseba og hélt áleiðis til Harran. 11Kom hann á stað nokkurn og var þar um nóttina því að sól var sest. Hann tók stein er þar var og setti undir höfuð sér og lagðist þar til svefns. 12Og hann dreymdi draum. Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.
13Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns, og Guð Ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. 14Þeir munu verða fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. 15Og sjá, ég er með þér og gæti þín hvar sem þú ferð og mun leiða þig aftur til þessa lands því að ég yfirgef þig ekki fyrr en ég hef komið því til leiðar sem ég hef heitið þér.“
16Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: „Sannarlega er Drottinn á þessum stað og ég vissi það ekki.“
17Og hann varð hræddur og sagði: „Hversu óttalegur er þessi staður. Hér er vissulega Guðs hús og hlið himins.“
18Jakob reis árla um morguninn, tók steininn sem hann hafði haft að svæfli, setti hann upp sem merkistein og hellti ilmolíu yfir hann. 19Og hann kallaði staðinn Betel en áður hét borgin Lús. 20Þá gerði Jakob heit og mælti: „Ef Guð verður með mér og gætir mín á vegferð minni og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast 21og komist ég heill á húfi aftur í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð. 22Og steinn þessi, sem ég hef sett sem merkistein, skal verða mér Guðs hús og ég skal gjalda þér tíund af öllu sem þú gefur mér.“

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in