YouVersion Logo
Search Icon

Sefanía 3

3
Ræða gegn Jerúsalem
1Vei þessari saurguðu,
vanhelguðu borg ofstopans.
2Hún hefur óhlýðnast,
ekki tekið áminningum.
Hún hefur hvorki treyst Drottni
né nálgast Guð sinn.
3Valdhafar hennar eru öskrandi ljón,
dómarar hennar úlfar næturinnar
sem ekki geyma ónagað bein til morguns.
4Spámenn hennar eru svikulir
og brigðulir í orðum.
Prestar hennar vanhelga það sem heilagt er
og misbjóða lögmálinu.
5En í borginni er hinn réttláti Drottinn,
hann aðhefst ekkert rangt.
Hann birtir dóm sinn á hverjum morgni,
það bregst ekki fremur en dögunin.
En hinn rangláti kann ekki að blygðast sín.
6Þjóðum hef ég tortímt
og steypt varðturnum þeirra.
Stræti þeirra hef ég eytt af fólki
svo að þar er enginn á ferð,
borgir þeirra eru í rúst, mannlausar,
og þar búa engir framar.
7Og ég vænti að þú óttaðist mig,
tækir áminningu minni,
að ekki dyldist augum hennar
refsingin sem ég kallaði yfir hana.
En því meir hafa þeir kappkostað
að snúa verkum sínum til ills.
8Bíðið, segir Drottinn,
bíðið dagsins þegar ég kem sem ákærandi.
Því að ég hef ákveðið að safna þjóðunum saman
og stefna saman konungsríkjunum
til að ausa yfir þau reiði minni,
allri minni logandi heift.
Já, fyrir eldi bræði minnar
mun öll jörðin eyðast.
Guð snýr við högum þjóðanna
9Þá mun ég gefa þjóðunum
nýjar varir og hreinar
svo að þær geti ákallað nafn Drottins
og þjónað honum einhuga.
10Dreifðir þjónar mínir
handan fljóta Eþíópíu munu koma
og færa mér fórnargjafir.
11Á þeim degi þarftu ekki að bera kinnroða
vegna illverka þinna
þegar þú hafnaðir mér
því að þá mun ég fjarlægja
þá sem kætast og hreykja sér af þér
og þú munt ekki framar ofmetnast
á mínu heilaga fjalli.
12En meðal þín mun ég skilja eftir
fátæka og hógværa þjóð
og hún mun leita hælis
í nafni Drottins.
13Þeir sem eftir verða af Ísrael
munu hvorki viðhafa rangindi né ósannindi.
Svikul tunga verður ekki í munni þeirra.
Þeir munu komast á beit og hvílast
og enginn verður til að styggja þá.
Guð snýr við högum lýðs síns
14Hrópaðu af gleði, Síonardóttir!
Fagnaðu hástöfum, Ísrael!
Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta,
dóttirin Jerúsalem.
15Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér,
hann hefur hrakið fjendur þína á brott.
Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér,
engar ófarir þarftu framar að óttast.
16Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem:
„Óttastu ekki, Síon,
láttu ekki hugfallast.
17Drottinn, Guð þinn, er hjá þér,
hin frelsandi hetja.
Hann mun fagna og gleðjast yfir þér,
hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi
og hugga með kærleika sínum
18hina langþjáðu.“
Ég mun víkja frá þér ógæfunni,
smáninni sem á þér hvílir.
19Á þeim tíma vitja ég þeirra
sem hafa þjakað þig.
Ég safna saman höltum og tvístruðum
og ég mun snúa smán þeirra í sæmd
og frægð um alla jörðina.
20Á þeim tíma safna ég yður saman
og á þeim tíma leiði ég yður heim,
því að ég geri yður fræga og nafnkunna
meðal allra þjóða veraldar
þegar ég sný við högum yðar
í augsýn þeirra, segir Drottinn.

Currently Selected:

Sefanía 3: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in