Sakaría 3
3
Fjórða sýn: Jósúa æðsti prestur
1Þessu næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest. Hann stóð frammi fyrir engli Drottins en á hægri hönd honum Satan til að flytja kæru sína gegn honum. 2En Drottinn mælti til Satans: „Drottinn ávíti þig, ákærandi. Er þessi maður ekki sem brandur úr báli dreginn?“ 3En Jósúa var í óhreinum klæðum þar sem hann stóð andspænis englinum. 4Engillinn tók þá til máls og sagði við þá sem stóðu frammi fyrir honum: „Færið hann úr þessum óhreinu klæðum.“ Síðan sagði hann við Jósúa: „Sjá, ég nem burt sök þína og læt færa þig í skrúða.“ 5Og hann sagði: „Látið hreina ennisspöng á höfuð hans.“ Þeir létu þá hreina ennisspöng á höfuð hans og færðu hann í skrúðann. Og engill Drottins stóð hjá. 6Og engill Drottins ávarpaði Jósúa með þessum orðum:
7Svo segir Drottinn allsherjar:
Ef þú gengur á mínum vegum
og heldur boðorð mín
skaltu einnig stjórna húsi mínu
og gæta forgarða þess
og ég heimila þér að samneyta
þessum þjónum mínum.
8Hlýddu á, Jósúa æðsti prestur,
þú og félagar þínir, sem sitja andspænis þér,
þeir eru tákn þess
að ég mun láta Sprota, þjón minn, koma
9því að hér er steinninn sem ég set fram fyrir Jósúa,
einn steinn og á honum sjö augu.
Ég gref á hann letrið,
segir Drottinn allsherjar,
og á einum degi nem ég burt sök þessa lands.
10Á þeim degi, segir Drottinn allsherjar, mun hver maður bjóða granna sínum undir vínvið sinn og fíkjutré.
Currently Selected:
Sakaría 3: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007