Matteusarguðspjall 6
6
Ekki fyrir mönnum
1Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.
2Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.
3En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir 4svo að ölmusa þín sé í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
Þegar þú biðst fyrir
5Og þegar þér biðjist fyrir þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
7Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. 8Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann. 9En þannig skuluð þér biðja:
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn,
10til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
11Gef oss í dag vort daglegt brauð.#6.11 Eða: brauð vort til dagsins á morgun.
12Fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
13Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.#6.13 Eða: frá hinum vonda.
[Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]#6.13 Vantar í sum handrit.
14Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. 15En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.
Þegar þú fastar
16Þegar þér fastið þá verið ekki döpur í bragði eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín svo að engum dyljist að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 17En þegar þú fastar þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt 18svo að menn verði ekki varir við að þú fastir heldur faðir þinn sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
Fjársjóður þinn
19Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. 20Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. 21Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.
22Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. 23En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.
Guð og mammón
24Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
25Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? 26Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 27Og hvert yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?#6.27 Eða: við hæð sína.
28Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. 29En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 30Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
31Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? 32Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. 33En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. 34Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.
Currently Selected:
Matteusarguðspjall 6: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007