YouVersion Logo
Search Icon

Jesaja 5

5
Ástarkvæði um víngarð
1Ég vil kveða um ástvin minn,
ástarkvæði um víngarð hans.
Ástvinur minn átti víngarð
á frjósamri hæð.
2Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið,
gróðursetti gæðavínvið.
Hann reisti turn í honum miðjum
og hjó þar þró til víngerðar.
Hann vonaði að garðurinn bæri vínber
en hann bar muðlinga.
3Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn,
milli mín og víngarðs míns.
4Hvað varð meira að gert við víngarð minn
en ég hafði gert við hann?
Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber?
5En nú vil ég kunngjöra yður
hvað ég ætla að gera við víngarð minn:
Ég ríf niður limgerðið
svo að hann verði nagaður í rót,
brýt niður múrvegginn
svo að hann verði troðinn niður.
6Ég vil gera hann að auðn,
hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp,
þar skulu vaxa þistlar og þyrnar
og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni.
7Því að víngarður Drottins er Ísraels hús
og Júdamenn ekran sem hann ann.
Hann vænti réttlætis
en sá blóði úthellt,
vænti réttvísi
en neyðaróp kváðu við.
Veihróp
8Vei þeim sem bæta húsi við hús,
tengja akur við akur
þar til engin spilda er eftir
og þér búið einir í landinu.
9Drottinn allsherjar sór í minni áheyrn:
Mörg hús verða yfirgefin,
stór og fögur hús mannlaus.
10Því að tíu plóglönd í víngarði munu gefa af sér eitt bat
og tunna útsæðis eina efu.
11Vei þeim sem fara snemma á fætur
til að sækja sér áfengan drykk
og sitja langt fram á nótt eldrauðir af víni.
12Þeir halda samdrykkju
við undirleik gígju, hörpu, páku og flautu
en gefa verkum Drottins engan gaum.
Þeir sjá ekki handaverk hans.
13Þess vegna verður þjóð mín hrakin í útlegð
að hún skilur ekki,
tignarmenn kveljast af hungri
og múgurinn er þjakaður af þorsta.
14Þess vegna þenur helja upp gap sitt,
glennir upp ginið sem mest hún má
svo að spjátrungarnir í Jerúsalem steypast þar niður
og múgurinn með,
hávaðamenn og svallarar.
15Mannkynið skal beygt, maðurinn auðmýktur,
augu drambsamra verða niðurlút.
16Drottinn allsherjar verður upphafinn í dóminum,
hinn heilagi Guð birtir heilagleika sinn með réttlæti sínu.
17Lömb verða þar á beit eins og í haga
og feitir sauðir í rústunum.
18Vei þeim sem draga sekt sína með svikaböndum ranglætisins
og syndina með aktygjum,
19þeim sem segja: „Flýti hann sér,
láti hann sem fyrst til sín taka
svo að vér sjáum það.
Komi nú fram ráðagerð Hins heilaga í Ísrael
svo að vér verðum varir við.“
20Vei þeim sem kalla hið illa gott
og hið góða illt,
sem gera myrkur að ljósi
og ljós að myrkri,
sem gera hið ramma sætt
og hið sæta rammt.
21Vei þeim sem eru vitrir í eigin augum
og hyggnir að eigin áliti.
22Vei þeim sem eru kappar við drykkju
og afreksmenn við bruggun sterkra drykkja,
23þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur
en svipta saklausan rétti sínum.
24Eins og eldstungur sleikja upp stráin
og hey hverfur í loga
mun rót þeirra fúna
og sproti þeirra feykist sem ryk.
Því að þeir hafa hafnað leiðsögn Drottins allsherjar
og forsmáð orð Hins heilaga í Ísrael.
25Þess vegna brann reiði Drottins gegn þjóð hans
og hann rétti út hönd sína gegn henni og laust hana
svo að fjöllin skulfu og líkin lágu eins og skarn á strætunum.
Samt sefaðist reiði hans ekki,
hönd hans er enn útrétt.
Ógn úr fjarska
26Hann mun hefja upp gunnfána fyrir þjóð í fjarlægð#5.26 Þ.e. Assýringa.
og flauta til hennar að koma frá ystu mörkum jarðar.
Og þarna kemur hún, fljót og frá á fæti,
27enginn er þar móður og enginn hnýtur,
enginn blundar, enginn sefur,
enginn lausgyrtur um lendar,
enginn með slitinn skóþveng.
28Örvar þeirra eru hvesstar,
allir bogar spenntir,
hófar hestanna tinnuharðir,
vagnhjólin fellibyl líkust.
29Heróp þeirra líkist ljónsöskri,
öskri ungljóns
sem urrar ógnandi og grípur bráð sína,
kemur henni undan og enginn fær bjargað.
30Á þeim degi kemur ógnandi öskur gegn þjóðinni
eins og brimgnýr.
Hann lítur til jarðar, þar er þrúgandi myrkur,
birtu bregður undir þungum skýjum.

Currently Selected:

Jesaja 5: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in