YouVersion Logo
Search Icon

Jesaja 24

24
Um efsta dag
Dómur Guðs yfir heiminum
1Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana.
Hann umhverfir ásjónu hennar
og tvístrar íbúunum.
2Eitt gengur yfir prest og alþýðu,
húsbónda og þræl,
húsfreyju og ambátt,
seljanda og kaupanda,
lánardrottin og lánþega,
okrara og skuldunaut hans.
3Jörðin verður gereydd,
rænd og rúin öllu,
því að Drottinn hefur sagt það.
4Jörðin fölnar og sölnar,
jörðin skrælnar og sölnar,
hinir æðstu á jörðinni blikna.
5Jörðin vanhelgast undir fótum íbúa sinna
þar sem þeir hafa óhlýðnast lögunum,
sniðgengið boðin,
rofið sáttmálann ævarandi.
6Þess vegna gleypir bölvun jörðina
og íbúar hennar verða sekir,
því brenna jarðarbúar upp,
aðeins örfáir verða eftir.
7Vínviðurinn fölnar,
laufið sölnar,
allir sem glöddust stynja.
8Gleðihljómur trumbunnar hljóðnar,
glaumur glaðværra þagnar,
gleði gígjunnar linnir.
9Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju,
ölið verður þeim beiskt sem drekka það.
10Borg glundroðans er brotin,
öll hús læst, enginn kemst þar inn.
11Á strætum er kveinað eftir víni,
öll gleði er horfin,
fögnuður jarðar flúinn.
12Auðnin ein er eftir í borginni,
borgarhliðið er mölbrotið.
13Þannig verður á jörðinni,
mitt á meðal þjóðanna,
eins og þegar ólífutré hefur verið hrist
eða við eftirtínslu
að loknum vínberjalestri.
14Þeir hefja upp raust sína
og fagna yfir hátign Drottins,
úr vestri#24.14 Orðrétt: frá hafinu. hrópa þeir hástöfum:
15„Heiðrið Drottin í austri,#24.15 Orðrétt: í landi dögunarinnar.
nafn Drottins, Guðs Ísraels, á fjarlægum eyjum á hafinu.“
16Frá ystu mörkum landsins heyrum vér söngva:
„Dýrð hinum réttláta.“
Ég hugsaði: Það er úti um mig, úti um mig,#24.16 Önnur hugsanleg þýðing: Þetta er geymt hjá mér. vei mér.
Svikarar pretta, svikarar pretta stórlega.
17Geigur, gryfja og gildra
ógna þér, jarðarbúi.
18Sá sem flýr háskann
fellur í gryfjuna
og sá sem kemst upp úr gryfjunni
festist í gildrunni.
Flóðgáttir himins opnast
og grunnur jarðar mun skjálfa.
19Jörðin brestur og gnestur,
jörðin rofnar og klofnar,
jörðin riðar og iðar.
20Jörðin skjögrar
eins og drukkinn maður.
Hún skekst til og frá eins og skýli vökumanns.
Þar sem afbrot hennar hvíla þungt á henni
fellur hún og rís aldrei upp framar.
21Á þeim degi mun Drottinn refsa
her himins á himni
og konungum jarðar á jörðu.
22Þeim verður safnað í gryfju,
þeir settir bak við lás og slá
og þeim hegnt eftir langa hríð.#24.22 Orðrétt: marga daga.
23Fölur máninn roðnar af skömm
og glóandi sólin fölnar af smán
því að Drottinn allsherjar
verður konungur á Síonarfjalli og í Jerúsalem
og dýrð hans mun ljóma frammi fyrir öldungum hans.

Currently Selected:

Jesaja 24: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in