YouVersion Logo
Search Icon

Jesaja 21

21
Fall Babýlonar
1Boðskapur um eyðimörkina við hafið:
Eins og stormar,
sem æða yfir Suðurlandið,
kemur hann úr eyðimörkinni,
hinu ógnvekjandi landi.
2Mér var birt þungbær opinberun:
„Svikarinn svíkur,
ræninginn rænir.
Gerið árás, Elamítar,
hefjið umsátur, Medar.
Ég læt öllum andvörpum linna.“
3Þess vegna skjálfa lendar mínar,
sárir stingir gagntaka mig
líkt og hríðir jóðsjúkrar konu.
Ég engist svo að ég heyri ekkert,
ég skelfist svo að ég sé ekkert.
4Hjarta mitt er ráðvillt,
ég er fullur skelfingar.
Rökkrið, sem ég þráði,
gerði hann mér að hryllingi.
5Lagt er á borð,
sessur lagðar fram,
það er etið og drukkið.
„Búið yður, höfðingjar.
Berið olíu á skildina,“
6því að svo sagði Drottinn við mig:
„Farðu og kallaðu til varðmann,
láttu hann skýra frá því sem hann sér.
7Sjái hann hervagna,
tvíeykisvagna með hestum fyrir,
riddara á ösnum,
riddara á úlföldum,
þá leggi hann við hlustir,
einbeiti sér.“
8Þá kallaði varðmaðurinn:
„Herra, dag hvern stend ég á varðbergi
og hverja nótt er ég á verði á mínum stað.“
9Skyndilega kom einhver í tvíeykisvagni,
tók til máls og sagði:
„Fallin er Babýlon, fallin.
Öll líkneski guða hennar
liggja mölbrotin á jörðinni.“
10Þjóð mín, þú sem troðin varst á þreskivellinum.
Það sem ég heyrði frá Drottni allsherjar,
Guði Ísraels, hef ég kunngjört yður.
Gegn Edóm
11Boðskapur um Edóm:
Kallað er til mín frá Seír:
„Vökumaður, hvað líður nóttinni?
Vökumaður, hvað líður nóttinni?“
12Vökumaðurinn svarar:
„Morgunninn kemur og þó er nótt.
Viljið þér spyrja,
þá komið aftur og spyrjið.“
Gegn Arabíu
13Boðskapur um Arabíu:#21.13Jórdanardalurinn og sléttlendið sunnan við Dauðahafið.
Kaupmannalestir Dedansmanna,
leitið náttstaðar í kjarri í eyðimörkinni.
14Þér sem búið í Tema,
færið þyrstum vatn,
gangið til móts við flóttamennina með brauð yðar.
15Því að þeir flýðu undan sverðum,
undan brugðnu sverði,
undan spenntum boga,
undan þrautum stríðsins.
16Því að svo segir Drottinn við mig: „Innan árs, eins og ár vistráðinna eru talin, verður öll dýrð Kedars að engu. 17Fáir verða eftir af bogmönnum niðja Kedars því að Drottinn, Guð Ísraels, hefur sagt það.“

Currently Selected:

Jesaja 21: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in