Haggaí 1
1
Hvatt til að endurreisa musterið
1Fyrsta dag hins sjötta mánaðar á öðru stjórnarári Daríusar konungs kom orð Drottins af munni Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og Jósúa Jósadakssonar, æðsta prests:
2Svo segir Drottinn allsherjar: Þessi þjóð segir: „Enn er ekki tímabært að endurreisa hús Drottins.“
3Þá barst orð Drottins af munni Haggaí spámanns:
4Er þá tímabært fyrir ykkur að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús er í rúst?
5Því segir Drottinn allsherjar: Sjáið hvernig ykkur hefur farnast. 6Þið hafið sáð miklu en uppskorið smátt, matast en ekki orðið saddir, drukkið en ekki fengið nægju ykkar, klæðst en ekki hlýnað og hafi launa verið aflað fóru þau í götótta pyngju.
7Svo segir Drottinn allsherjar: Sjáið hvernig ykkur hefur farnast.
8Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið húsið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gera mig vegsamlegan, segir Drottinn.
9Þið hafið vænst mikils en ykkur áskotnast lítið og ég hef blásið burt því sem þið fluttuð heim. Og hvers vegna? − segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns sem liggur í rústum meðan sérhver ykkar er á þönum við eigið hús.
10Þess vegna hefur himinninn yfir ykkur synjað ykkur um dögg og þess vegna hefur jörðin haldið aftur af gróðri sínum. 11Ég hef kallað þurrk yfir landið, yfir fjöllin, yfir nýsprottið korn, vínberjalög og olíu, yfir allt sem jörðin gefur, yfir menn, dýr og allt sem er með höndum skapað.
12Serúbabel Sealtíelsson, landstjóri í Júda, og Jósúa Jósadaksson, æðsti prestur, og allir sem eftir voru af þjóðinni, hlýddu þá boðum Drottins, Guðs síns, og orðum Haggaí spámanns þegar Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann til þeirra og menn óttuðust Drottin.
13Haggaí, boðberi Drottins, fór að köllun Drottins og sagði við fólkið: Ég er með yður, segir Drottinn.
14Og Drottinn efldi hug Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, Jósúa Jósadakssonar, æðsta prests, og þeirra sem eftir voru af þjóðinni. Þeir komu og hófust handa við að byggja hús Drottins allsherjar, Guðs síns, 15á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar.
Currently Selected:
Haggaí 1: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007