YouVersion Logo
Search Icon

Habakkuk 1

1
1Spádómur sem vitraðist Habakkuk spámanni.
Fyrri kvörtun: Réttlætinu hallað
2Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn,
án þess að þú hlustir?
Um ofbeldi hef ég hrópað til þín
án þess að þú kæmir til hjálpar.
3Hví sýnirðu mér illskuna
og horfir aðgerðalaus á ranglætið?
Hví eru fyrir augum mér ofbeldi og rán
sem vekja ágreining og kveikja illdeilur?
4Vegna þessa sljóvgast réttvísin
og réttlætið sigrar ekki,
illmennið situr um hinn réttláta,
og því er rétturinn afskræmdur.
Andsvar Guðs: Koma Kaldea
5Skyggnist um meðal þjóðanna,
hyggið að og undrist stórum.
Slík verk eru unnin nú á yðar dögum
að þér tryðuð ekki þótt tjáð væri.
6Nú magna ég upp Kaldea,
þá bráðu og grimmlyndu þjóð,
sem leggur leið sína um heiminn þveran
og tekur sér lönd sem ekki eru hennar.
7Ógurlegir og skelfilegir eru þeir;
þeir virða þau lög og reglur einar
sem geðþóttinn býður.
8Fljótari en hlébarðar eru hestar þeirra,
frárri á fæti en úlfar óbyggðanna.
Gæðingar þeirra þjóta að
úr fjarska sem á vængjum bornir,
eins og gammar steypa sér yfir bráð.
9Erindi þeirra er ofbeldið eitt,
svipur þeirra hvass sem austanvindurinn,
þeir sópa saman stríðsföngum eins og sandi.
10Konunga hæða þeir
og gera gys að höfðingjum,
þeir skopast að varnarvirkjunum,
hrúga að þeim mold og vinna þau.
11Þeim vex ásmegin
en brotlegir gerast þeir og sekir,
þeir sem hafa gert sér völdin að guði.
Síðari kvörtun: Áníðsla valdhafanna
12Ert þú, Drottinn, ekki Guð minn frá öndverðu,
minn Heilagi, sem aldrei deyr?
Drottinn, þú hefur sett þá undir dóm.
Þú, bjarg mitt, þú hefur ætlað þeim refsingu.#1.12 Önnur hugsanleg þýðing: Drottinn, þú hefur sett þá til að dæma. Þú, bjarg mitt, þú hefur sett þá til að refsa.
13Of hrein eru augu þín til að líta hið illa
og þér er um megn að horfa á illvirki.
Hví horfirðu þá aðgerðalaus á illvirki þeirra
meðan hinn rangláti svelgir í sig þann
sem honum er réttlátari?
14Nú hefurðu gert menn eins og fiska sjávarins,
eins og skriðdýrin sem eiga sér engan leiðtoga.
15Þeir draga þá alla upp á öngli,
veiða þá í vörpu sína og safna þeim í net sitt.
Yfir því gleðjast þeir og fagna.
16Þess vegna færa þeir vörpu sinni sláturfórnir
og netum sínum brennifórnir.
Þeim þakka þeir vænan afla
og ríkulegar vistir.
17Munu þeir þá tæma net sín enn á ný
og ekki skirrast við að drepa þjóðir án vægðar?

Currently Selected:

Habakkuk 1: BIBLIAN07

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in

Video for Habakkuk 1