YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 31

31
Jakob flýr Laban
1Jakob heyrði að synir Labans sögðu: „Jakob hefur tekið allt sem faðir okkar átti. Allra þessara auðæfa hefur hann aflað sér af eigum föður okkar.“ 2Og Jakob sá það á svipmóti Labans að hann bar ekki sama hug til hans og áður.
3Þá sagði Drottinn við Jakob: „Snúðu aftur til lands feðra þinna og til ættfólks þíns og ég mun vera með þér.“
4Jakob sendi nú eftir Rakel og Leu og lét kalla þær út í hagann þangað sem hjörð hans var. 5Hann sagði við þær: „Ég sé á svipmóti föður ykkar að hann ber ekki sama hug til mín og áður en Guð föður míns hefur verið með mér. 6Þið vitið sjálfar að ég hef þjónað föður ykkar af fremsta megni. 7Samt hefur faðir ykkar svikið mig og breytt kaupi mínu tíu sinnum en Guð hefur ekki látið honum líðast að gera mér mein. 8Þegar hann sagði að hið flekkótta skyldi verða kaup mitt fæddi öll hjörðin flekkótt og þegar hann sagði að hið rílótta skyldi verða kaup mitt fæddi öll hjörðin rílótt. 9Þannig hefur Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann. 10Eitt sinn um fengitíma hjarðarinnar sá ég í draumi að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir. 11Og engill Guðs kallaði til mín í draumnum: Jakob! Ég svaraði: Hér er ég. 12Þá sagði hann: Líttu upp og sjáðu. Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir. Það er vegna þess að ég hef séð allt sem Laban hefur gert þér. 13Ég er sá Guð sem birtist þér í Betel þar sem þú smurðir merkistein og vannst mér heit. Leggðu nú af stað, farðu burt úr þessu landi og snúðu aftur til ættlands þíns.“
14Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu: „Við eigum ekki lengur neina hlutdeild eða arf í húsi föður okkar. 15Erum við honum ekki sem útlendingar af því að hann hefur selt okkur og eytt þeim peningum sem hann fékk fyrir okkur? 16Hins vegar eigum við og börn okkar allan þann auð sem Guð hefur tekið frá föður okkar. Gerðu nú allt það sem Guð hefur boðið þér.“
17Jakob bjóst þá til ferðar, setti börn sín og konur upp á úlfaldana 18og tók allan fénað sinn og fjárhlut þann sem hann hafði aflað sér, þá fjáreign sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu. Síðan lagði hann af stað til Ísaks föður síns í Kanaanslandi. 19Þegar Laban var farinn til að rýja sauði sína stal Rakel húsgoðum föður síns. 20Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska með því að segja honum ekki að hann hygðist fara burt. 21Hann flýði með allt sem hann átti, hélt yfir fljótið og stefndi á Gíleaðfjöll.
Laban eltir Jakob
22Á þriðja degi var Laban sagt að Jakob væri flúinn. 23Þá tók hann frændur sína með sér og veitti honum eftirför. Eftir sjö dagleiðir náði hann honum á Gíleaðfjöllum. 24Þá um nóttina kom Guð í draumi til Labans hins arameíska og sagði: „Gættu þess að mæla ekkert styggðarorð til Jakobs.“ 25Þegar Laban náði Jakobi hafði hann sett upp tjöld sín á fjallinu og Laban tjaldaði einnig með frændum sínum á Gíleaðfjöllum.
26Laban sagði við Jakob: „Hvers vegna gerðirðu þetta? Þú hefur blekkt mig og tekið dætur mínar eins og þær væru herfang. 27Hvers vegna læddist þú burt og blekktir mig? Hvers vegna léstu mig ekki vita svo að ég gæti kvatt þig með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum? 28Hvers vegna gafstu mér ekki færi á að kyssa barnabörn mín og dætur? Þú hefur breytt heimskulega. 29Það er á mínu valdi að vinna þér mein en Guð föður þíns sagði við mig í nótt: Gættu þess að mæla ekkert styggðarorð til Jakobs. 30Hafi heimþráin rekið þig af stað, hvers vegna þurftir þú þá að stela húsgoðunum mínum?“
31Jakob svaraði Laban: „Ég óttaðist að þú kynnir að taka dætur þínar frá mér með valdi. 32En finnirðu goð þín í fórum einhvers skal sá ekki halda lífi. Kannaðu í viðurvist frænda þinna hvort eitthvað af eigum þínum sé hjá mér og taktu það ef það reynist svo.“ Jakob vissi ekki að Rakel hafði stolið goðunum. 33Laban gekk inn í tjald Jakobs og í tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna en fann ekkert. Hann fór úr tjaldi Leu og gekk inn í tjald Rakelar. 34En Rakel hafði tekið húsgoðin, komið þeim fyrir í úlfaldasöðlinum og sest ofan á þau. Laban leitaði í öllu tjaldinu en fann þau ekki. 35Rakel sagði við föður sinn. „Herra minn, ekki reiðast mér þó að ég geti ekki staðið upp að þér ásjáandi því að ég hef á klæðum.“ Og Laban hélt áfram að leita en fann ekki húsgoðin.
36Þá reiddist Jakob. Hann ásakaði Laban og sagði: „Hvað hef ég gert rangt, hvað hef ég brotið af mér fyrst þú eltir mig svo ákaflega? 37Þú hefur leitað í öllum farangri mínum. Hvað hefurðu fundið þar af eigum þínum? Leggðu það hér fram í viðurvist frænda þinna svo að þeir geti dæmt í máli okkar. 38Í þau tuttugu ár, sem ég hef verið hjá þér, hafa hvorki ær þínar né geitur látið lömbum og ekki hef ég etið hrúta hjarðar þinnar. 39Ég kom aldrei til þín með það sem dýrrifið var heldur bætti það sjálfur. Þú krafðist bóta af mér hvort sem því hafði verið stolið að degi eða nóttu. 40Það var hlutskipti mitt að vera þjakaður af hita á daginn og af kulda á nóttunni. Mér kom ekki blundur á brá. 41Ég hef verið tuttugu ár á heimili þínu. Í fjórtán ár þjónaði ég þér fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína og þú breyttir kaupi mínu tíu sinnum. 42Hefði ekki Guð föður míns, Guð Abrahams og Ótti Ísaks,#31.42 Fornt heiti á Guði Ísraels. verið með mér þá hefðir þú sent mig burt tómhentan. En Guð sá þrautir mínar og strit handa minna og í nótt kvað hann upp dóm.“
Jakob og Laban gera sáttmála
43Laban svaraði Jakobi: „Dæturnar eru mínar dætur, börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð og allt sem þú sérð heyrir mér til. Ætti ég í dag að gera dætrum mínum mein eða börnunum sem þær hafa alið? 44Gerum nú sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitni milli mín og þín.“ 45Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis. 46Og Jakob bað frændur sína að sækja steina og þeir komu með steina og reistu vörðu. Síðan gerðu þeir máltíð sína við vörðuna. 47Laban kallaði vörðuna Jegar Sahadúta en Jakob kallaði hana Galeð. 48Og Laban mælti: „Þessi skal í dag vera vitni milli mín og þín.“ Þess vegna kallaði hann hana Galeð. 49Hún var einnig kölluð Mispa því að Laban sagði: „Drottinn skal hafa auga með okkur þegar við erum fjarri hvor öðrum.“ 50Ef þú kemur illa fram við dætur mínar og ef þú tekur þér fleiri konur við hlið dætra minna, þá skaltu minnast þess að Guð er samt vitni okkar þótt enginn maður sé hjá okkur.“
51Laban sagði við Jakob: „Líttu á þessa vörðu og á merkisteininn sem ég hef reist milli mín og þín. 52Varðan skal vera vitni þess og merkisteinninn vottur þess að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín með illt í huga né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkisteini til mín með illt í huga. 53Guð Abrahams og Guð Nahors dæmi milli okkar.“ Það er Guð feðra þeirra. Og Jakob sór eiðinn við þann sem Ísak faðir hans óttaðist. 54Og Jakob færði sláturfórn á fjallinu og bauð ættingjum sínum til máltíðar. Þeir mötuðust og héldu síðan kyrru fyrir á fjallinu um nóttina. 55Laban reis árla næsta morgun, kyssti barnabörn sín og dætur í kveðjuskyni og blessaði þau. Síðan hélt hann heim á leið.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in