Fyrsta Mósebók 23
23
Sara andast. Abraham kaupir henni legstað
1Sara lifði hundrað tuttugu og sjö ár. Svo mörg urðu hennar æviár. 2Sara dó í Kirjat Arba, það er í Hebron í Kanaanslandi, og hóf Abraham þá að flytja líksöng og syrgja hana. 3Síðan reis Abraham upp frá hinni látnu og kom að máli við Hetítana og sagði: 4„Ég dvelst meðal ykkar sem landlaus aðkomumaður. Látið mig fá legstað til eignar svo að ég geti jarðsett hina látnu.“
5Hetítar svöruðu Abraham og sögðu: 6„Hlýð á, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi á meðal okkar! Jarðset þú þína látnu í hinum besta af grafreitum okkar. Enginn okkar mun meina þér að greftra þína látnu í legstað sínum.“
7Þá reis Abraham á fætur og laut landslýðnum, Hetítunum, djúpt 8og mælti til þeirra: „Ef það er vilji ykkar að ég fái greftrað hina látnu, þá hlýðið á. Talið máli mínu við Efron Sóarsson, 9að hann selji mér Makpelahelli sem hann á og er í útjaðri landareignar hans. Fyrir fullt verð skal hann selja mér hann sem grafreit mitt á meðal ykkar.“
10Efron sat meðal Hetítanna. Hetítinn Efron svaraði Abraham í áheyrn Hetítanna, allra samborgara sinna, og mælti: 11„Nei, herra minn. Hlýð nú á mig. Ég gef þér akurinn og hellinn sem þar er. Ég gef þér hann í augsýn samlanda minna. Greftra þú hina látnu.“
12Þá laut Abraham landslýðnum djúpt 13og mælti til Efrons í áheyrn alls lýðsins: „Ég bið þig að hlýða á mig. Ég greiði verð akursins. Tak við því af mér svo ég geti greftrað hina látnu þar.“
14Þá svaraði Efron Abraham og sagði við hann: 15„Herra minn, hlýð á mig. Landið er fjögur hundruð silfursikla virði. Hvað er það okkar á milli? Greftra þú þína látnu.“
16Abraham hlýddi á mál Efrons og reiddi fram verðið sem hann hafði nefnt í áheyrn Hetítanna, fjögur hundruð silfursikla á gangverði kaupmanna. 17Þannig var landareign Efrons í Makpela nálægt Mamre, bæði landareignin og hellirinn, sem þar er, og öll tré sem eru í landareigninni umhverfis, 18fest Abraham til eignar í augsýn Hetítanna, samborgara hans.
19Eftir það jarðsetti Abraham Söru konu sína í hellinum á Makpelaakri gegnt Mamre, sem nú heitir Hebron, í Kanaanslandi. 20Þannig var landareignin og hellirinn, sem þar er, fest Abraham til eignar sem grafreitur úr hendi Hetíta.
Currently Selected:
Fyrsta Mósebók 23: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007