Jóhannesarguðspjall 6
6
Jesús mettar
1Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. 2Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. 3Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. 4Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.
5Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ 6En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.
7Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara#6.7 Einn denar var venjuleg daglaun landbúnaðarverkamanns, sbr. Matt 20.2. nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ 8Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: 9„Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“
10Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. 11Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. 12Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ 13Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.
14Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ 15Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
Jesús gengur á vatninu
16Þegar kvöld var komið fóru lærisveinar Jesú niður að vatninu, 17stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaúm. Myrkur var skollið á og Jesús var ekki enn kominn til þeirra. 18Vind gerði hvassan og tók vatnið að æsast. 19Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm#6.19 Þrjátíu skeiðrúm eru tæpir sex kílómetrar. sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir 20en hann sagði við þá: „Það er ég, óttist eigi.“ 21Þeir vildu þá taka hann í bátinn en í sömu svifum rann báturinn að landi þar sem þeir ætluðu að lenda.
Jesús, brauð lífsins
22Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum heldur höfðu þeir farið burt einir saman. 23Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn þar sem Drottinn hafði gert þakkir og fólkið etið brauðið. 24Nú sáu menn að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaúm í leit að Jesú.
25Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: „Rabbí, nær komstu hingað?“
26Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því að þér sáuð tákn, heldur af því að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir. 27Aflið yður eigi þeirrar fæðu sem eyðist heldur þeirrar fæðu sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því að faðirinn, sjálfur Guð, hefur veitt honum vald sitt.“
28Þá sögðu þeir við hann: „Hvað eigum við að gera svo að við vinnum verk Guðs?“
29Jesús svaraði þeim: „Það er verk Guðs að þér trúið á þann sem hann sendi.“
30Þeir spurðu hann þá: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur svo að við trúum? Hvað afrekar þú? 31Feður okkar átu manna í eyðimörkinni eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta.“
32Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. 33Brauð Guðs er sá sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“
34Þá sögðu þeir við hann: „Drottinn, gef okkur ætíð þetta brauð.“
35Jesús sagði þeim: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir. 36En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki. 37Allt sem faðirinn gefur mér mun koma til mín og þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka. 38Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig. 39En sá er vilji þess sem sendi mig að ég glati engu af öllu því sem hann hefur gefið mér heldur reisi það upp á efsta degi. 40Því sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“
41Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því að hann sagði: „Ég er brauðið sem niður steig af himni,“ 42og menn sögðu: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“
43Jesús svaraði þeim: „Verið ekki með kurr yðar á meðal. 44Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann og ég mun reisa hann upp á efsta degi. 45Hjá spámönnunum er skrifað: Guð mun kenna þeim öllum. Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum kemur til mín. 46Ekki er það svo að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn sem er frá Guði hefur séð föðurinn. 47Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. 48Ég er brauð lífsins. 49Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. 50Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. 51Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“
52Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“
53Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. 54Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. 55Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. 56Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. 57Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. 58Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“
59Þetta sagði hann þegar hann var að kenna í samkundunni í Kapernaúm.
Orð eilífs lífs
60Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“
61Jesús vissi með sjálfum sér að kurr var með lærisveinum hans út af þessu og sagði við þá: „Hneykslar þetta yður? 62En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað sem hann áður var? 63Það er andinn sem lífgar, maðurinn án hans megnar ekkert. Orðin sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf. 64En hér á meðal eru nokkrir sem ekki trúa.“ Jesús vissi frá upphafi hverjir þeir voru sem trúðu ekki og hver sá var sem mundi svíkja hann. 65Og hann bætti við: „Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín nema faðirinn veiti honum það.“
66Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum. 67Þá sagði Jesús við þá tólf: „Ætlið þið að fara líka?“
68Símon Pétur svaraði honum: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs 69og við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi Guðs.“
70Jesús svaraði þeim: „Hef ég eigi sjálfur útvalið ykkur tólf? Þó er einn ykkar djöfull.“ 71En hann átti við Júdas, son Símonar Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.
Valið núna:
Jóhannesarguðspjall 6: BIBLIAN07
Áherslumerki
Deildu
Afrita
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007