Jóhannesarguðspjall 4
4
Jesús og samverska konan
1Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes, 2- reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans - 3þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu. 4Hann varð að fara um Samaríu.
5Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum. 6Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
7Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: “Gef mér að drekka.” 8En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
9Þá segir samverska konan við hann: “Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?” [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
10Jesús svaraði henni: “Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ‘Gef mér að drekka,’ þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn.”
11Hún segir við hann: “Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn? 12Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?”
13Jesús svaraði: “Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta, 14en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.”
15Þá segir konan við hann: “Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa.”
16Hann segir við hana: “Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað.”
17Konan svaraði: “Ég á engan mann.”
Jesús segir við hana: “Rétt er það, að þú eigir engan mann, 18því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt.”
19Konan segir við hann: “Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður. 20Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.”
21Jesús segir við hana: “Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 22Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. 23En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. 24Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.”
25Konan segir við hann: “Ég veit, að Messías kemur - það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt.”
26Jesús segir við hana: “Ég er hann, ég sem við þig tala.”
27Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: “Hvað viltu?” eða: “Hvað ertu að tala við hana?”
28Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: 29“Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?” 30Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
31Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: “Rabbí, fá þér að eta.”
32Hann svaraði þeim: “Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um.”
33Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: “Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?”
34Jesús sagði við þá: “Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. 35Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. 36Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. 37Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. 38Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.”
39Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört. 40Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
41Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan. 42Þeir sögðu við konuna: “Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins.”
Annað tákn í Galíleu
43Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu. 44En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu. 45Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina.
46Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son. 47Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. 48Þá sagði Jesús við hann: “Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki.”
49Konungsmaður bað hann: “Herra, kom þú áður en barnið mitt andast.”
50Jesús svaraði: “Far þú, sonur þinn lifir.”
Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað. 51En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.
52Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: “Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.” 53Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: “Sonur þinn lifir.” Og hann tók trú og allt hans heimafólk.
54Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.
বর্তমানে নির্বাচিত:
Jóhannesarguðspjall 4: BIBLIAN81
হাইলাইট
শেয়ার
কপি
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic Bible © Icelandic Bible Society, 1981.