Fyrsta Mósebók 21
21
Fæðing Ísaks
1Drottinn vitjaði Söru eins og hann hafði heitið henni og gerði við hana eins og hann hafði lofað. 2Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans um þær mundir sem Guð hafði heitið honum. 3Abraham nefndi soninn, sem Sara ól honum, Ísak. 4Og hann umskar Ísak, son sinn, á áttunda degi eins og Guð hafði boðið honum. 5Abraham var hundrað ára þegar honum fæddist Ísak, sonur hans. 6Og Sara sagði: „Guð hefur gefið mér hlátursefni. Hver sem heyrir þetta mun hlæja með mér.“ 7Og hún bætti við: „Hver hefði sagt við Abraham: Sara mun hafa barn á brjósti. Samt hef ég fætt honum son í elli hans.“
Hagar og Ísmael
8Sveinninn dafnaði og var vaninn af brjósti. Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. 9Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik 10og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“
11Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns. 12En Guð sagði við Abraham:
„Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak. 13En ambáttarsoninn mun ég einnig gera að þjóð því að hann er afkvæmi þitt.“
14Snemma næsta morgun tók Abraham brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, lyfti drengnum á öxl henni og sendi hana á braut. Reikaði hún um eyðimörkina við Beerseba.
15Er vatnið þraut úr skinnbelgnum lagði hún drenginn undir runna einn, 16gekk þaðan og settist skammt undan eins og í örskots fjarlægð því að hún hugsaði: „Ég vil ekki horfa á drenginn deyja.“ Og hún tók að gráta hástöfum.
17Þá heyrði Guð grát sveinsins og engill Guðs kallaði til Hagar af himni og sagði:
„Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. 18Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“
19Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka.
20Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. 21Hann hafðist við í Paranóbyggðunum og móðir hans tók handa honum konu frá Egyptalandi.
Sáttmáli Abrahams og Abímeleks
22Um þetta leyti bar svo við að Abímelek og Píkol, hershöfðingi hans, sögðu við Abraham:
„Guð er með þér í öllu sem þú gerir. 23Því skaltu nú sverja mér þess eið við Guð að þú munir hvorki níðast á mér né afkomendum mínum heldur munir þú breyta gagnvart mér og landinu, þar sem þú dvelst nú, af sömu tryggð og ég hef auðsýnt þér.“
24Og Abraham mælti: „Ég vinn eið að því.“
25Þá átaldi Abraham Abímelek vegna vatnsbrunnsins sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki 26en Abímelek svaraði: „Ekki veit ég hverjir hafa gert þetta. Hvorki hefur þú sagt mér frá því né hef ég heyrt þetta fyrr en í dag.“ 27Tók þá Abraham sauðfé og naut og gaf Abímelek og gerðu þeir tveir sáttmála. 28Þá tók Abraham sjö lömb og lét þau til hliðar. 29Spurði þá Abímelek Abraham: „Til hvers eru þessi sjö lömb sem þú hefur látið til hliðar?“ 30Og hann svaraði: „Þú skalt taka við þessum sjö lömbum úr hendi minni og það sé mér vitni þess að ég gróf þennan brunn.“
31Af þessum sökum heitir sá staður Beerseba af því að þeir sóru þar báðir.
32Þeir gerðu sáttmála í Beerseba og tók Abímelek sig upp ásamt Píkól, hershöfðingja sínum, og sneru þeir aftur til lands Filistea. 33En Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og þar ákallaði hann nafn Drottins, Hins eilífa Guðs. 34Dvaldist Abraham lengi í landi Filistea sem aðkomumaður.
বর্তমানে নির্বাচিত:
Fyrsta Mósebók 21: BIBLIAN07
হাইলাইট
শেয়ার
কপি
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007