Sakaría 14
14
Dagur Drottins
1Sjá, sá dagur kemur frá Drottni að herfangi þínu verður skipt í þér miðri. 2Ég mun safna öllum þjóðunum til hernaðar gegn Jerúsalem, borgin verður tekin, húsin rænd og konunum nauðgað. Helmingur borgarbúa verður herleiddur en ekki verður upprættur sá hluti þeirra sem eftir verður í borginni. 3Þá mun Drottinn fara og berjast við þessar þjóðir eins og hann gerir á orrustudegi. 4Og á þeim degi munu fætur hans staðnæmast á Olíufjallinu austur af Jerúsalem. Og Olíufjallið mun klofna í miðju frá austri til vesturs. Þar verður firnavíður dalur er helmingur fjallsins færist í norður en hinn í suður. 5Og þið skuluð flýja í fjalldal minn, en dalurinn nær allt til Asal, flýja eins og þið flýðuð jarðskjálftann á dögum Ússía Júdakonungs. En Drottinn, Guð minn, mun koma og með honum allir heilagir.
6Á þeim degi verður hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin, 7það verður samfelldur dagur og á því kann Drottinn einn skil. Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. 8Á þeim degi mun ferskt vatn streyma frá Jerúsalem, að hálfu í austurhafið og að hálfu í vesturhafið, jafnt sumar sem vetur. 9Drottinn mun þá verða konungur yfir veröldinni allri. Á þeim degi mun Drottinn verða einn og nafn hans eitt.
10Allt landið verður slétt eins og Jórdanardalur allt frá Geba til Rimmon suður af Jerúsalem, en hún mun gnæfa hátt, óbifanleg á stað sínum, frá Benjamínshliði, þangað sem fyrra hliðið var, allt að hornhliðinu og frá Hananelturni til konungsvínþrónna. 11Menn munu búa þar og bannfæring kemur ekki yfir hana framar. Jerúsalem mun verða óhult.
12Yfir allar þjóðir sem herjuðu á Jerúsalem mun Drottinn senda plágu: Hann mun láta hold þeirra rotna meðan þeir standa enn í fæturna, augu þeirra lætur hann morkna í augnatóttunum og tunguna visna í munni þeirra. 13Á þeim degi mun skelfingin hvolfast yfir þá frá Drottni, þeir munu þrífa hver í annars hönd og hver höndin verður uppi á móti annarri. 14Jafnvel Júda mun berjast með gegn Jerúsalem. Þá verður auði grannþjóðanna safnað saman, ókjörum af gulli, silfri og klæðum. 15Og sama plágan mun einnig ganga yfir hesta, múldýr, úlfalda, asna og allar skepnur í þeim búðum.
16En allir sem eftir lifa af öllum þjóðum sem herjað hafa á Jerúsalem munu árlega fara þangað til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina. 17En engin regnskúr mun koma yfir þá menn af kynkvíslum jarðarinnar sem ekki fara upp til Jerúsalem til að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar. 18En fari kynkvísl Egyptalands ekki þangað mun sama plágan þó ekki ganga yfir hana og Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir sem ekki fara þangað til að halda laufskálahátíðina. 19Þetta skal verða hegning Egypta og allra þeirra þjóða sem ekki fara þangað til að halda laufskálahátíðina.
20Á þeim degi verður letrað á bjöllur hestanna: „Helgaður Drottni“ og katlarnir í húsi Drottins munu verða jafnstórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu. 21Og sérhver ketill í Jerúsalem og Júda verður helgaður Drottni allsherjar og allir þeir sem færa fórnir munu koma og taka einhvern þeirra til að sjóða í. Á þeim degi verða engir mangarar#14.21 Orðrétt: Kanverjar. framar í húsi Drottins allsherjar.
Currently Selected:
Sakaría 14: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007