Sálmarnir 66
66
1Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur.
Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2syngið um hans dýrlega nafn,
hyllið hann með lofgjörð,
3segið við Guð: Hversu óttaleg eru verk þín.
Sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4Öll jörðin lýtur þér og lofsyngur þér, lofsyngur nafni þínu. (Sela)
5Komið og sjáið verk Guðs,
undursamleg verk hans meðal manna:
6Hann breytti hafinu í þurrlendi,
þeir héldu fótgangandi yfir fljótið,
þá glöddumst vér yfir honum.
7Hann ríkir um eilífð vegna máttar síns,
augu hans gefa gætur að þjóðunum,
uppreisnarmenn geta ekki staðið gegn honum. (Sela)
8Þér lýðir, lofið Guð vorn
og látið hljóma lofsöng um hann.
9Hann hélt oss á lífi,
varði fætur vora falli.
10Þú reyndir oss, Guð,
hreinsaðir oss eins og þegar silfur er hreinsað,
11þú leiddir oss í gildru,
lagðir þunga byrði á lendar vorar,
12lést menn ríða yfir höfuð vor.
Vér höfum farið gegnum eld og vatn
en þú leiddir oss til allsnægta.
13Ég kem með alfórnir í hús þitt,
efni þau heit mín við þig
14sem varir mínar guldu
og munnur minn nefndi þá er ég var í nauðum staddur.
15Ég færi þér alfórnir af feitum dýrum
ásamt fórnarreyk af hrútum,
ég fórna nautum og höfrum. (Sela)
16Komið, hlustið, allir þér er óttist Guð,
ég mun segja frá öllu sem hann gerði fyrir mig.
17Til hans hrópaði ég með munni mínum
en lofgjörð lá mér á tungu.
18Hefði ég haft illt í huga
hefði Drottinn ekki hlustað
19en Guð bænheyrði mig,
hann hlustaði á bænarkall mitt.
20Lofaður sé Guð
er hvorki vísaði bæn minni á bug
né tók frá mér miskunn sína.
Currently Selected:
Sálmarnir 66: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007