Jesaja 8
8
Táknrænt nafn
1Drottinn sagði við mig: „Fáðu þér stórt spjald og skrifaðu á það með venjulegum griffli: Hraðfengi Skyndirán.#8.1 Á hebresku: Maher-sjalal Kas-bas. 2Taktu mér traust vitni, Úría prest og Sakaría Jeberekíason.“
3Síðan nálgaðist ég spákonu#8.3 Hér er átt við eiginkonu spámannsins. og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: „Láttu hann heita Hraðfengi Skyndirán 4því að áður en drengurinn lærir að segja pabbi minn og mamma mín, verður auðurinn frá Damaskus og herfangið frá Samaríu flutt fram fyrir Assýríukonung.“
Straumhæg vötn og stríð
5Og enn talaði Drottinn til mín og sagði:
6Þar sem fólkið fyrirlítur hina straumhægu Sílóalind
og guggnar fyrir Resín og syni Remalja
7lætur Drottinn hið stríða og straumþunga Efrat
belja yfir þá,
Assýríukonung og allan hans her.
Það mun brjótast úr farvegi sínum
og flóa yfir alla bakka.
8Það mun ryðjast inn í Júda,
flæða og fossa þar yfir,
uns það tekur mönnum undir höku,
og þenja vængi sína yfir allt land þitt,#8.8 Önnur hugsanleg þýðing: kvíslar fljótsins munu breiðast yfir land þitt.
svo vítt sem það er, Immanúel.
9Takið eftir, framandi þjóðir, og skelfist.
Hlustið, íbúar fjarlægra landa.
Vígbúist og skelfist.
Vígbúist og skelfist.
10Ráðið ráðum yðar, þau verða að engu.
Takið ákvörðun, hún fær ekki staðist,
því að Guð er með oss.
Spámaðurinn varaður við
11Því að svo mælti Drottinn við mig þegar hönd hans greip mig þéttingsfast og hann varaði mig við að ganga sama veg og þetta fólk:
12Kallið ekki allt samsæri sem þetta fólk kallar samsæri.
Óttist ekki það sem það óttast,
skelfist ekki.
13Drottinn allsherjar sé yður heilagur,
hann skuluð þér óttast,
hann skuluð þér skelfast.
14Hann skal verða helgidómur,
ásteytingarsteinn og hrösunarhella
fyrir bæði ríki Ísraels.
Hann mun verða snara og gildra
fyrir Jerúsalembúa.
15Margir þeirra munu hrasa,
falla og brotna.
Þeir munu festast í snörunni,
falla í gildruna.
Spámaðurinn bíður Drottins
16Ég vef saman vitnisburðinum, innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum. 17Ég bíð Drottins sem byrgir nú auglit sitt fyrir ætt Jakobs, ég vona á hann.
18Ég og börnin, sem Drottinn hefur gefið mér, erum tákn og viðvörun fyrir Ísrael frá Drottni allsherjar sem býr á Síonarfjalli.
19Ef sagt er við yður: „Leitið til framliðinna og anda sem hvískra og muldra,“ skuluð þér svara: „Á fólk ekki frekar að leita til Guðs síns? Hvers vegna ættu menn að leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi? 20Leitið til kenningarinnar og vitnisburðarins.“ Hver sem ekki talar þannig mun ekki líta morgunroðann.
21Hrjáður og hungraður
mun hann ráfa um landið.
Þegar hungrið sverfur að fyllist hann bræði
og formælir konungi sínum og Guði sínum.
Hvort sem hann horfir upp
22eða starir til jarðar
sér hann aðeins neyð og dimmu,
þrúgandi myrkur.
23Engin björgun býðst þeim
sem er ofurseldur algjörum sorta.
Ekki skal myrkur vera í landinu sem fyrr var í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland en síðar meir mun hann varpa frægð yfir strandveginn, landið handan við Jórdan, Galíleu heiðingjanna.
Currently Selected:
Jesaja 8: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy
Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007