YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 33

33
Esaú og Jakob sættast
1Jakob leit upp og sá Esaú koma með fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar. 2Hann lét ambáttirnar og börn þeirra vera fremst, þá Leu og börn hennar en Rakel og Jósef aftast. 3Sjálfur gekk hann á undan þeim. Hann beygði sig sjö sinnum til jarðar er hann gekk til móts við bróður sinn. 4Esaú hljóp á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann og þeir grétu. 5Þegar Esaú sá konurnar og börnin spurði hann: „Hvaða fólk er þetta sem með þér er?“ Hann svaraði: „Það eru börnin sem Guð hefur í náð sinni gefið þjóni þínum.“ 6Þá gengu ambáttirnar fram ásamt börnum sínum og hneigðu sig. 7Síðan gekk Lea fram og hneigði sig ásamt börnum sínum. Loks gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.
8Þá spurði Esaú: „Hvað hyggstu fyrir með þessa fylkingu sem ég mætti?“ Jakob svaraði: „Að finna náð í augum herra míns.“ 9„Ég á nóg, bróðir,“ sagði Esaú. „Eigðu það sem þitt er.“ 10„Nei,“ sagði Jakob, „hafi ég fundið náð í augum þínum þiggðu þá gjöfina af mér. Þegar ég sá auglit þitt var sem ég sæi auglit Guðs og þú hefur tekið vel á móti mér. 11Ég bið þig að þiggja gjöfina sem þér var færð því að Guð hefur verið mér góður og ég hef allt sem ég þarfnast.“ Jakob lagði að honum þar til hann þáði gjöfina.
12Esaú sagði: „Leggjum nú af stað og höldum áfram. Ég skal fara á undan þér.“ 13Hann svaraði: „Herra minn veit að börnin eru lítil og ég verð að taka tillit til þess að með í för eru lambær og kýr með kálfum. Ræki ég þær of hart einn dag mundi öll hjörðin týna lífi. 14Þess vegna bið ég þig, herra, að þú farir á undan þjóni þínum. Þá get ég komið á eftir þér til Seír, herra minn, á þeim hraða sem hentar fénaðinum og börnunum.“ 15Esaú sagði: „Þá vil ég að minnsta kosti skilja nokkra af mönnum mínum eftir hjá þér.“ Jakob svaraði: „Þess gerist engin þörf, finni ég aðeins náð í augum herra míns.“
16Sama dag sneri Esaú aftur til Seír. 17En Jakob hélt til Súkkót. Þar byggði hann sér hús og reisti laufskála handa fénaði sínum. Þess vegna var staðurinn nefndur Súkkót.
18Jakob kom heill á húfi til Síkemborgar í Kanaanslandi á leið sinni frá Mesópótamíu og sló upp tjöldum sínum fyrir utan borgina. 19Akurinn, þar sem hann hafði slegið upp tjaldi sínu, keypti hann af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað kesíta. 20Þar reisti hann altari sem hann nefndi El-elóhe-Ísrael.#33.20 Guð er Guð Ísraels.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in