YouVersion Logo
Search Icon

Fyrsta Mósebók 12

12
Abraham, Ísak og Jakob
Abram fer til fyrirheitna landsins
1Drottinn sagði við Abram:#12.1 Ættfaðirinn er hér nefndur Abram, síðar Abraham. „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. 2Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. 3Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“
4Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum. Abram var sjötíu og fimm ára að aldri er hann fór frá Harran.
Abram fer um Kanaan og til Egyptalands
5Abram tók Saraí,#12.5 Saraí, sjá 17.15. konu sína, og Lot, bróðurson sinn, með sér og allan kvikfénað sem þau höfðu eignast og allt það vinnufólk er þau höfðu aflað sér í Harran og lagði af stað og hélt til Kanaanslands. Og þau komu til Kanaanslands.
6Abram fór nú um landið allt þar til komið var til Síkem, að Móre-eikinni. En þá voru Kanverjar í landinu.
7Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: „Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.“ Þá reisti Abram Drottni altari þar sem hann hafði birst honum.
8Hann hélt þaðan til fjallanna fyrir austan Betel og sló upp tjaldi sínu. Var Betel í vestur og Aí í austur. Þar reisti hann Drottni altari og ákallaði nafn Drottins. 9Abram færði sig nú smám saman í átt til Suðurlandsins.#12.9 Þ.e. Negeb-óbyggða.
Abram og Saraí í Egyptalandi
10Nú varð hallæri í landinu og fór Abram þá suður til Egyptalands til þess að dveljast þar sem útlendingur því að hallærið í landinu var mjög mikið. 11Og svo bar við er hann nálgaðist Egyptaland að hann sagði við Saraí, konu sína: „Ég veit hversu fögur þú ert. 12Þegar Egyptar sjá þig munu þeir segja: „Hún er kona hans,“ og þeir munu drepa mig en láta þig halda lífi. 13Segðu því að þú sért systir mín til þess að mér farnist vel þín vegna og ég megi halda lífi sakir þín.“
14Þegar Abram kom til Egyptalands sáu Egyptar að konan var mjög fögur. 15Höfðingjar faraós sáu hana og lofuðu hana við faraó, og var farið með konuna inn í höll faraós. 16En Abram farnaðist vel hennar vegna og hann eignaðist sauði og nautgripi, asna og þræla, ambáttir, ösnur og úlfalda.
17Þá laust Drottinn faraó og hirð hans miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams. 18Faraó lét kalla Abram fyrir sig og sagði: „Hvað hefur þú gert mér? Hví sagðir þú mér ekki að hún væri kona þín? 19Hví sagðir þú: „Hún er systir mín,“ svo að ég tók hana mér fyrir konu? Þarna er konan þín, taktu hana og farðu burt.“ 20Og faraó gaf mönnum sínum fyrirmæli og þeir fylgdu Abram á braut og konu hans og öllu sem hann átti.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in