Önnur Makkabeabók 2
2
Jeremía felur tjaldbúðina
1Í heimildum má sjá að Jeremía spámaður hafi skipað þeim sem herleiddir voru að koma nokkru af eldinum undan eins og áður er frá sagt. 2Þar greinir og frá því að spámaðurinn afhenti hinum herleiddu lögmálið og lagði ríkt á við þá að gleyma ekki boðum Drottins og láta eigi leiða sig afvega þegar þeir sæju skurðgoð af gulli og silfri og skartið á þeim. 3Með öðrum og áþekkum orðum áminnti hann þá að festa sér lögmálið í hjarta.
4Einnig er þar skráð að eftir vitrun hafi spámaðurinn boðið að bera skyldi tjaldið og sáttmálsörkina á eftir sér og að hann hafi farið til fjallsins sem Móse gekk á til að sjá landið sem Guð hafði gefið fyrirheit um. 5Þegar Jeremía kom þangað fann hann hellisskúta. Hann lét bera tjaldið, örkina og reykelsisaltarið þangað og byrgja munnann. 6Nokkrir fylgdarmanna hans fóru síðar til að stika út leiðina en gátu ekki fundið hana. 7Þegar Jeremía komst að þessu ávítaði hann þá og mælti: „Staðurinn á að vera hulinn þangað til Guð safnar lýð sínum saman og auðsýnir honum náð. 8Þá mun Drottinn leiða þessa hluti í ljós og dýrð Drottins mun birtast í skýi eins og hún opinberaðist á dögum Móse og þegar Salómon bað að musterið yrði helgað á mikilfenglegan hátt.“
Lýsing á vígsluhátíð Salómons
9Þar er og frá því skýrt hvernig hinn vísi Salómon bar fram vígslufórn þegar musterissmíðinni var lokið. 10Eins og Móse bað til Drottins og eldur féll af himni og brenndi fórnina bað Salómon einnig og eldurinn kom ofan og eyddi brennifórninni. 11Móse sagði: „Syndafórninni var eytt af því að hennar var ekki neytt.“
12Með sama hætti hélt Salómon einnig hátíð í átta daga.
Bókasafn Nehemía
13Í ritum og minnisbókum Nehemía er sagt frá þessu öllu og því að hann hafi lagt grunn að bókasafni þar sem hann kom fyrir bókum um konungana og spámennina, ritum Davíðs og bréfum konunganna um gjafir til musterisins. 14Sömuleiðis safnaði Júdas fyrir okkur þeim ritum sem fóru á flæking í stríðinu sem við háðum og eru þau geymd hjá okkur. 15Ef þið þarfnist þeirra þá sendið menn eftir þeim.
Boð um hátíðahöld vegna hreinsunar musterisins
16Við ritum ykkur nú vegna þess að við ætlum að halda hátíðlega upp á hreinsun musterisins. Hvetjum við ykkur til að halda einnig þessa hátíð. 17Guð hefur frelsað allan lýð sinn og gefið okkur öllum arfleifðina og konungdóminn og prestdóminn og heilagleikann 18eins og hann hét í lögmálinu. Við vonum til Guðs að hann muni brátt miskunna okkur og safna okkur saman úr öllum heimshornum á hinn heilaga stað því að hann hefur frelsað okkur úr mikilli ógæfu og hreinsað staðinn.
Formáli höfundar
19Hér segir frá Júdasi Makkabeusi og bræðrum hans, hreinsun hins mikla musteris og vígslu altarisins, 20enn fremur frá styrjöldum gegn Antíokkusi Epífanes og Evpator, syni hans, 21og frá hinum himnesku vitrunum sem birtust hinum fræknu hetjum sem börðust fyrir gyðingdóminn og auðnaðist að vinna aftur landið allt, þótt fáliðaðir væru, og hrekja hersveitir útlendinganna á brott. 22Tókst þeim að ná aftur á sitt vald musterinu heimsfræga, frelsa borgina og koma á ný á lögum sem voru nær afnumin. Það var vegna þess að Guð var þeim náðugur í allri mildi sinni. 23Allt þetta ritaði Jason frá Kýrene í fimm bókum og ætla ég að reyna að draga það saman í eina bók. 24Mér er fullljóst hve óárennilegt hið langa rit hans er. Efnismergðin veldur þeim miklum erfiðleikum sem vilja ná tökum á því sem þar er sagt frá. 25Þess vegna lagði ég í þetta þeim til ánægju sem sögur lesa og til hægðarauka þeim sem vilja festa sér það í minni sem þeir lesa og öllum til gagns sem bók þessi berst í hendur.
26En mér, sem gengið hef undir þá byrði að semja ágrip þetta, er það ekki auðvelt verk heldur kostar það svita og svefnleysi, 27alveg eins og það krefur þann mikils sem undirbýr veislu sem hann ætlar öðrum að njóta. Samt er ég fús til að takast á við þessa þraut til að hljóta þakklæti margra. 28Ég læt sagnaritarann um hin einstöku efnisatriði en geri mér far um að aðalatriðin komi fram í ágripi mínu. 29Sá sem reisa vill hús verður að hafa yfirsýn yfir framkvæmd verksins. Hinn, sem tekst á hendur að prýða bygginguna og mála, þarf einungis að huga að því sem hentar til skrauts. Þannig finnst mér því farið um mig. 30Frumhöfundur sögunnar verður að kynna sér efnið nákvæmlega og gera öllu skil í smáatriðum. 31Sá sem semur ágrip getur leyft sér að fara fljótt yfir sögu og sleppa því að rekja allt til rótar.
32Nú vil ég hefja frásögnina án frekari málalenginga um það sem fyrr var sagt enda er hjákátlegt að fjölyrða í formála bókar og þurfa fyrir bragðið að stytta söguna.
Currently Selected:
Önnur Makkabeabók 2: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007