Síðara Korintubréf 7
7
1Þar eð við því höfum þessi fyrirheit, elskuð börn mín, þá hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun okkar í guðsótta.
Gleði í þrengingum
2Rýmið fyrir mér í hjörtum ykkar. Engum hef ég gert rangt til, engan skaðað, engan féflett. 3Ég segi það ekki til að áfellast ykkur. Ég hef áður sagt að ég elska ykkur svo að ég vil lifa og deyja með ykkur. 4Ég treysti ykkur fullkomlega og er hreykinn af ykkur. Ég er fullur bjartsýni og innilegrar gleði í allri þrenging minni.
5Þegar ég því var kominn til Makedóníu hafði ég enga eirð í mér heldur var ég á alla vegu aðþrengdur, átök við andstæðinga, ótti innra með mér. 6En Guð, sem uppörvar beygða, veitti mér kjark þegar Títus kom, 7já, ekki aðeins með komu hans heldur og með þeirri uppörvun sem hann hafði fengið hjá ykkur. Hann skýrði mér frá þrá ykkar, kveinstöfum ykkar, áhuga ykkar mín vegna svo að ég gladdist við það enn frekar.
8Að vísu hef ég hryggt ykkur með bréfinu en ég iðrast þess ekki nú þótt ég iðraðist þess áður þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt ykkur þótt ekki væri nema um stund. 9Nú er ég glaður, ekki yfir því að þið urðuð hrygg heldur yfir því að hryggð ykkar leiddi til þess að þið bættuð ráð ykkar. Þið urðuð hrygg Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón svo að ég varð ykkur ekki að meini. 10Sú hryggð sem er Guði að skapi leiðir til þess að menn taki sinnaskiptum, sem engan iðrar, og frelsist en þegar menn hryggjast að hætti heimsins leiðir það til dauða. 11Sjáið hvernig Guð hefur notað hryggð ykkar. Hún hefur orðið til þess að sýna hve ærukær þið eruð, hve vel þið stóðuð fyrir máli ykkar, hve gröm þið voruð og ótta slegin, hve þið þráðuð að sjá mig, hve rösklega þið tókuð á máli mannsins. Í öllu hafið þið nú sannað að þið voruð vítalaus um þetta. 12Þótt ég því hafi skrifað ykkur þá var það ekki vegna þess sem óréttinn gerði né hins sem fyrir óréttinum varð. Ég skrifaði til þess að þið gætuð sýnt fyrir augliti Guðs hversu heils hugar þið standið með mér. 13Þetta jók mér kjark.
En auk hvatningarinnar, sem ég fékk, gladdi það mig allra mest hve Títus varð glaður. Þið hafið öll róað huga hans. 14Því að hafi ég í nokkru stært mig af ykkur við hann þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem ég hef talað við ykkur, þannig hefur og hrós mitt um ykkur við Títus reynst sannleikur. 15Og hjartaþel hans til ykkar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni ykkar allra, hversu þið tókuð á móti honum með ugg og ótta. 16Það gleður mig að ég get í öllu borið traust til ykkar.
Currently Selected:
Síðara Korintubréf 7: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007