Fyrsta Makkabeabók 15
15
Antíokkus VII falast eftir stuðningi Símonar
1Antíokkus, sonur Demetríusar konungs, sendi bréf frá eyjunum í hafinu til Símonar, æðsta prests og þjóðhöfðingja Gyðinga, og þjóðarinnar allrar. 2Var bréfið á þessa leið:
„Antíokkus konungur sendir Símoni, æðsta presti og þjóðhöfðingja, og þjóð Gyðinga kveðjur. 3Nokkrir svikarar hafa sölsað undir sig völdin í ríki feðra vorra. Þar sem ég ætla mér að endurheimta völdin og koma skipan mála í sama horf og var hef ég dregið að mér mikinn herafla og látið smíða herskip. 4Ætla ég að stíga á land og hafa hendur í hári þeirra sem spillt hafa landi voru og eyðilagt margar borgir í ríki mínu. 5Hér með staðfesti ég þær skattaívilnanir sem fyrirrennarar mínir í hásæti hafa veitt þér og staðfesti að allt stendur óbreytt um aðrar ívilnanir þér veittar. 6Ég heimila þér að slá eigin mynt til að nota sem gjaldmiðil í landi þínu 7og lýsi Jerúsalem og helgidóminn skattfrjálsan. Öllum þeim vopnum, sem þú hefur látið gera, og virkjum, sem þú reistir og ræður yfir, mátt þú halda. 8Allt sem þú skuldar konungi og allt sem konungdæmið kann að krefja þig síðar um skal þér upp gefið frá og með þessum degi og til frambúðar. 9Er vér svo höfum náð völdum í ríki voru á ný skulum vér sæma þig og þjóð þína og helgidóm slíkri vegsemd að tign ykkar mun verða augljós um alla jörðina.“
Trýfoni velt úr sessi
10Árið eitt hundrað sjötíu og fjögur sté Antíokkus á land í landi feðra sinna. Gengu allar hersveitir honum á hönd svo að Trýfon varð fáliðaður. 11Antíokkus veitti honum eftirför og flýði hann til Dór sem er við ströndina. 12Sá hann líka að hann var heillum horfinn þar sem hersveitirnar höfðu yfirgefið hann. 13Antíokkus setti herbúðir við Dór. Hann hafði eitt hundrað og tuttugu þúsundir hermanna og átta þúsund riddara. 14Hann umkringdi borgina og skip gerðu árás sjávarmegin svo að þrengt var að henni frá sjó og landi og því var alls engum fært að komast inn eða út úr borginni.
Rómverjar lýsa yfir stuðningi við Gyðinga
15Númeníus og fylgdarmenn hans komu frá Róm með svohljóðandi bréf til hinna ýmsu konunga og landa:
16„Lúsíus, ræðismaður Rómverja, sendir Ptólemeusi konungi kveðju. 17Fulltrúar Gyðinga, vina okkar og bandamanna, vitjuðu okkar til að endurnýja forna vináttu og bandalag. Var þeim falið það af Símoni æðsta presti og þjóð Gyðinga. 18Þeir færðu okkur gullskjöld, þúsund mína virði. 19Við afréðum því að skrifa hinum ýmsu konungum og löndum og hvetja til þess að leitast verði við að Gyðingum sé ekki unnið tjón, hvorki á þá ráðist, borgir þeirra og land né þeim veitt vígsgengi sem á þá herja. 20Ákváðum við að þiggja skjöldinn af þeim. 21Hafi einhverjir afbrotamenn frá landi þeirra leitað hælis í landi ykkar hvetjum við ykkur til að framselja þá Símoni æðsta presti svo að hann geti refsað þeim samkvæmt lögmáli Gyðinga.“
22Hið sama skrifaði Lúsíus Demetríusi konungi og Attalusi, Aríarates og Arsakes 23og Sampsame og Spörtu og til hinna ýmsu landa: Delos, Myndus, Sýkíon, Karíu, Samos, Pamfylíu, Lýkíu, Halíkarnassus, Ródos, Faselis, Kos, Síde, Aradus, Gortýna, Knídus, Kýpur og Kýrene. 24Afrit af bréfunum var sent Símoni æðsta presti.
Antíokkus VII snýr baki við Símoni
25Antíokkus konungur settist öðru sinni um Dór. Sótti her hans sífellt fastar að borginni. Lét Antíokkus smíða umsátursvélar og lokaði öllum aðkomu- og útgönguleiðum fyrir Trýfoni. 26Símon sendi Antíokkusi tvö þúsund úrvalshermenn til hjálpar í stríðinu, silfur, gull og gnótt vopna. 27Þetta vildi Antíokkus ekki þiggja heldur brá öllu sem hann hafði samið um áður við Símon og varð fjandsamlegur honum. 28Sendi hann Atenóbíus, einn vina sinna, til að semja við Símon og skila þessu til hans:
„Þið hafið hertekið Joppe og Geser og virkið í Jerúsalem sem eru borgir í ríki voru. 29Þið hafið lagt héruð þeirra í auðn, bakað landinu mikinn skaða og sölsað undir ykkur margan staðinn í ríki voru. 30Skilið þegar aftur borgum þeim sem þið tókuð og gjaldið skatta af héruðunum sem þið lögðuð undir ykkur utan landamæra Júdeu. 31Að öðrum kosti skuluð þið greiða fimm hundruð talentur silfurs fyrir tjónið sem þið olluð og aðrar fimm hundruð í stað skattsins af borgunum. Ella komum vér og förum með her á hendur ykkur.“
32Þegar Atenóbíus, vinur konungs, kom til Jerúsalem og sá vegsemd Símonar, stórfenglegan glæsileik hirðar hans, borðbúnað af gulli og silfri og fjölmennt þjónaliðið varð hann agndofa. Þegar hann síðan flutti Símoni boð konungs 33svaraði hann:
„Við höfum hvorki tekið land, sem öðrum tilheyrir, né slegið eign okkar á neitt sem annarra er. Við tókum einungis arf feðra okkar sem óvinir okkar höfðu áður sölsað undir sig með rangindum.
34Nú, þegar færi er til, ætlum við að halda arfi feðra okkar. 35Hvað Joppe og Geser áhrærir, sem þú gerir kröfu til, þá hafa íbúar þeirra borga valdið þjóð okkar og landi stórtjóni. Fyrir þær skulum við þó greiða eitt hundrað talentur.“
Atenóbíus svaraði honum engu orði 36heldur sneri sárreiður aftur til konungs og greindi honum frá því sem Símon hafði sagt. Hann lýsti vegsemd Símonar fyrir honum og öllu sem borið hafði fyrir augu hans og fylltist konungur heift.
Herför Kendebeusar
37Trýfoni tókst að komast á skip og flýja til Ortosíu. 38Konungur setti þá Kendebeus yfir herinn við strandlengjuna og fékk honum bæði fótgöngulið og riddara. 39Gaf konungur honum fyrirmæli um að koma her sínum fyrir við landamæri Júdeu, víggirða Kedron, styrkja hlið borgarinnar og herja á þjóðina. Sjálfur veitti konungur Trýfoni eftirför. 40Þegar Kendebeus kom til Jabne tók hann strax að hrella þjóðina. Fór hann árásarferðir inn í Júdeu og tók fanga og myrti. 41Hann víggirti Kedron og kom þar fyrir riddurum og öðru liði svo að þeir gætu haldið þaðan til árása með fram vegum Júdeu eins og konungur hafði boðið.
Currently Selected:
Fyrsta Makkabeabók 15: BIBLIAN07
Highlight
Share
Copy

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007