YouVersion Logo
Search Icon

Önnur Makkabeabók 9

9
Drottinn refsar Antíokkusi
1Um þessar mundir var Antíokkus á óskipulegu undanhaldi frá Persíu. 2Hann hafði ráðist inn í Persepólis, sem svo er nefnd, til að ræna musterið og ná borginni á sitt vald. Borgarbúar brugðust við og gripu til vopna til að verjast. Þeim tókst að reka Antíokkus á flótta svo að hann varð að hörfa aftur sneyptur.
3Er hann nálgaðist Ekbatana frétti hann hvernig liði Níkanors og Tímóteusar reiddi af. 4Varð hann ævareiður og ákvað að láta Gyðinga líða fyrir það og einnig fyrir tjónið sem Persepólisbúar ollu honum er þeir ráku hann á flótta. Skipaði hann ökumanni sínum að aka linnulaust alla leið í áfangastað.
Dómur himinsins var sannarlega með í þeirri för. Konungur sagði nefnilega í drambi sínu: „Ég skal gera Jerúsalem að fjöldagröf Gyðinga um leið og ég kem þangað.“ 5En Guð Ísraels, sem er alskyggn Drottinn, laust hann ósýnilegri og ólæknandi meinsemd. Hafði konungur vart sleppt þessum orðum þegar hann gat tæpast af sér borið fyrir iðrakvölum og innantökum.
6Var það fyllilega makleg hegning fyrir þann sem hafði pyntað aðra innvortis á hræðilegan hátt. 7Ekki rénaði þó dramb hans heldur varð hann sýnu hrokafyllri en áður, brann af heift gegn Gyðingum og bauð að enn hraðar skyldi ekið. En sem vagninn þaut áfram á fleygiferð hentist konungur skyndilega af honum og kom svo harkalega niður að hann gat hvergi á heilum sér tekið og verkjaði í hvert bein.
8Hann sem áður hafði sýnt svo ofurmannlegan hroka að hann taldi vald sitt slíkt að jafnvel bylgjur hafsins hlýddu honum og hann gæti vegið hæstu fjöll á reislu, var nú lostinn til jarðar og borinn á börum. Öllum mátti það vera augljós vottur um mátt Guðs. 9Þótt hann væri enn á lífi skriðu ormar úr augum hins óguðlega og holdið leystist af honum með mikilli þjáningu og kvöl. Fnykurinn sem lagði af rotnandi holdi hans varð hernum óbærilegur. 10Litlu fyrr hafði hann talið sig geta náð til stjarna himinsins. Nú gat enginn borið hann vegna daunsins sem af honum lagði.
Antíokkus gerir Drottni áheit
11En nú, þegar hann lá svona hörmulega á sig kominn, tók hroki hans að dvína og hann að ná áttum enda gengu kvalirnar, sem hegning Guðs olli, sífellt nær honum og án afláts. 12Þegar hann gat ekki einu sinni afborið lengur óþefinn af sjálfum sér sagði hann: „Það ber að auðmýkja sig fyrir Guði. Dauðlegur maður skyldi ekki telja sig jafningja Guðs.“
13Og þetta hrakmenni beindi bænum sínum og áheitum til þess Drottins sem hann gat ekki framar vænst neinnar miskunnar af. Hann hét því 14að lýsa borgina heilögu frjálsa en þangað hafði hann verið að hraða sér. Hann hafði einsett sér að jafna borgina við jörðu og breyta henni í fjöldagröf. 15Hann hafði ekki ætlað að unna Gyðingum legs í grafreit heldur að varpa þeim og börnum þeirra út til ætis fyrir villidýr og fugl. Nú hugðist hann veita þeim sömu réttindi og Aþenumönnum. 16Musterið heilaga, sem hann áður rændi, lofaði hann að prýða með fegurstu gjöfum og bæta margfalt fyrir áhöldin helgu og hann lofaði að greiða kostnað við fórnir úr eigin vasa. 17Auk þessa ætlaði hann að gerast Gyðingur og fara um alla heimsbyggðina og kunngjöra mátt Guðs.
Bréf Antíokkusar til Gyðinga
18En þar sem þrautirnar linuðust ekki hið minnsta, enda var dómur Guðs maklega á hann fallinn, örvænti hann um sig og sendi Gyðingum eftirfarandi bréf sem var í formi bænarskjals og hljóðaði svo:
19„Konungurinn og hershöfðinginn Antíokkus sendir þegnum sínum, æruverðugum Gyðingum, kærar kveðjur og óskir um heill og hamingju. 20Ef þið og börn ykkar eruð við góða heilsu og gengur allt að óskum þakka ég Guði það heils hugar með von festa á himni. 21Ég ligg hins vegar sjálfur sjúkur og minnist hrærðum huga þeirrar virðingar og velvildar sem þið auðsýnduð mér.
Þar sem ég varð fársjúkur á leiðinni heim frá Persíu tel ég nauðsynlegt að huga að sameiginlegu öryggi okkar allra. 22Að sönnu er ég ekki vonlaus um bata, er þvert á móti bjartsýnn á að komast á fætur. 23Ég minnist þess að faðir minn kaus sér eftirmann þegar hann hélt í herferðir til upplandanna 24til þess að menn vissu hverjum stjórnin hefði verið falin ef eitthvað óvænt henti eða ótíðindi bærust og þyrftu því ekki að óróast neitt. 25Þá er mér og ljóst að þeir sem stjórna grannríkjunum og landamærahéruðunum fylgjast grannt með gangi mála og því hverju fram vindur.
Þess vegna lýsi ég því yfir að Antíokkus sonur minn á að taka konungdóm eftir mig. Ég hef oft falið hann flestum ykkar á hendur og trúað ykkur fyrir honum þegar ég hef haldið til efri skattlandanna. Hjálagt bréf er ætlað honum.
26Ég áminni ykkur og bið um að minnast velgjörða minna við ykkur, bæði einstaklinga og þjóð, og auðsýna syni mínum sömu velvild og þið sýnið mér. 27Ég er sannfærður um að hann muni koma fram við ykkur af sömu mildi og mannúð og ég.“
28Þannig lauk þessi morðingi og guðlastari lífi sínu í framandi landi og mátti líða sárustu kvalir, líkar þeim sem hann bakaði öðrum, og bíða aumkunarverðasta dauðdaga á fjöllum uppi. 29Filippus, æskuvinur hans, fór með lík hans heim en af ótta við son Antíokkusar fór hann úr landi og hélt til Ptólemeusar Fílometors í Egyptalandi.

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in