YouVersion Logo
Search Icon

Önnur Makkabeabók 11

11
Júdas Makkabeus sigrar Lýsías
1Lýsías ráðsherra, sem var frændi konungs og forráðamaður hans, undi því sem orðið var hið versta. Skömmu síðar 2safnaði hann um áttatíu þúsund manna liði og hélt með það, auk alls riddaraliðs síns, gegn Gyðingum. Ætlaði hann að byggja Jerúsalem Grikkjum, 3gera musterið skattskylt eins og helgidóma heiðingja og bjóða æðstaprestsembættið hæstbjóðanda á hverju ári. 4Ekki leiddi hann hugann að mætti Guðs, svo sigurviss var hann með fótgöngulið sitt, sem taldi tugþúsundir, og þúsundir riddara og áttatíu fíla.
5Þegar hann var kominn inn í Júdeu og nálgaðist Bet Súr, sem er öflugt vígi, nærri eitt hundrað og fimmtíu skeiðrúm frá Jerúsalem, settist hann um staðinn. 6Þegar Makkabeus og menn hans fréttu að hann væri sestur um virki þeirra sneru þeir sér ásamt öllum lýðnum til Drottins, ákölluðu hann harmþrungnir og grátandi og báðu hann að senda góðan engil til að bjarga Ísrael.
7Makkabeus sjálfur bjóst fyrstur vopnum og eggjaði menn sína að fylgja sér út í háskann til hjálpar bræðrum þeirra. Þeir lögðu allir sem einn fúslega af stað.
8Ekki voru þeir komnir langt frá Jerúsalem er þeim birtist riddari sem fór fyrir liði þeirra. Bar hann hvít klæði og sveiflaði gullnum vopnum. 9Þá vegsömuðu þeir allir samhuga miskunnsaman Guð og fylltust slíkum kjarki að þeir voru þess albúnir að ráðast ekki einungis á menn heldur örgustu villidýr og járnmúra. 10Sóttu þeir síðan fram fylktu liði ásamt himneskum liðsmanni sínum sem Drottinn hafði sent þeim í miskunn sinni. 11Steyptu þeir sér yfir óvinina eins og ljón og felldu ellefu þúsundir fótgönguliða þeirra og að auki sextán hundruð riddara og hröktu alla hina á flótta. 12Flestir þeirra sem komust undan voru sárir og vopnlausir og Lýsías sjálfur bjargaðist með háðulegum hætti.
Lýsías semur frið við Gyðinga
13En hann var ekki óskynsamur og þegar hann velti óförum sínum fyrir sér rann upp fyrir honum að Hebrear mundu ósigrandi af því að almáttugur Guð berðist með þeim. Kom hann boðum til þeirra 14og tókst að telja þá á að ganga að samkomulagi sem um margt var sanngjarnt. Hann sannfærði þá einnig um að hann gæti komið konunginum til að verða vinur þeirra.
15Makkabeus samþykkti allt sem Lýsías stakk upp á því að þannig taldi hann hag allra best borgið enda hafði konungur fallist á allar óskir Gyðingum til handa sem Júdas hafði lagt skriflega fyrir Lýsías.
Bréf Lýsíasar til Gyðinga
16Bréfin, sem Gyðingar höfðu fengið frá Lýsíasi, voru á þessa leið:
„Lýsías sendir öllum Gyðingum kveðju. 17Jóhannes og Absalon, fulltrúar ykkar, hafa afhent mér eftirfarandi bréf og hafa óskað eftir samþykki þess sem þar er farið fram á. 18Öllu sem nauðsyn bar til að skjóta til konungs hef ég greint honum frá. Hann hefur samþykkt það sem mögulegt var.
19Ef þið haldið áfram að vera hliðhollir stjórninni mun ég hér eftir leitast við að stuðla að heill ykkar. 20Um einstök efnisatriði hef ég falið áðurnefndum mönnum og mínum eigin fulltrúum að ráðgast nánar við ykkur. 21Lifið heilir.
Ritað á tuttugasta og fjórða degi mánaðar Seifs Korintumanna árið eitt hundrað fjörutíu og átta.“
Bréf konungs til Lýsíasar
22Bréf konungsins var sem hér segir:
„Antíokkus konungur sendir Lýsíasi bróður sínum kveðju. 23Allt frá því að faðir vor var hafinn til guðanna hefur það verið ósk vor að þegnar ríkisins geti setið að sínu í friði. 24Vér höfum fregnað að Gyðingar uni illa þeirri breytingu til grískra siða sem faðir vor reyndi að koma á og að þeir vilji fremur halda sínum háttum og hafi óskað að fá að lifa að siðum sínum og lögum.
25Þar sem það er vilji vor að þessi þjóð fái einnig lifað í friði, þá kunngjörum vér hér með að musteri Gyðinga skuli afhent þeim og að þeim sé heimilt að lifa að hætti og siðum feðra sinna. 26Gerið því svo vel að senda þeim boð um velvilja vorn og semja frið við þá svo að þeim verði hugarhægra og þeir geti glaðir gengið að störfum sínum.“
27Bréf konungs til þjóðarinnar var á þessa leið:
„Antíokkus konungur sendir öldungaráði Gyðinga og öðrum Gyðingum kveðju. 28Ef ykkur vegnar vel þá er það að vorum óskum. Sjálfir erum vér við góða heilsu. 29Menelaus hefur tjáð oss að þið viljið snúa heim og sinna eigin málum. 30Þeim sem snúa heim fyrir þrítugasta xantíkkusmánaðar eru hér með tryggð eftirtalin réttindi: 31Gyðingum er frjálst að fara að eigin forskriftum um fæðu og að lögum sínum að fyrri hætti. Enginn þeirra skal heldur í neinu gjalda fyrir drýgðar yfirsjónir. 32Vér höfum einnig sent Menelaus til að koma ró á hugi ykkar. 33Lifið heilir.
Ritað árið eitt hundrað fjörutíu og átta, fimmtánda xantíkkusmánaðar.“
Bréf Rómverja til Gyðinga
34Rómverjar sendu þeim einnig bréf sem hljóðar þannig:
„Kvintus Memmíus og Títus Maníus, fulltrúar Rómverja, senda þjóð Gyðinga kveðju. 35Við samþykkjum það sem Lýsías frændi konungsins hefur veitt ykkur. 36Það sem hann áleit rétt að bera undir konunginn þurfið þið að ræða og senda okkur hið fyrsta boð svo að við getum lagt erindið þannig fyrir að það komi ykkur sem best. Við erum á förum til Antíokkíu. 37Sendið því til okkar svo skjótt sem verða má einhverja sem geta greint okkur frá afstöðu ykkar. 38Með heillaóskum.
Ritað árið eitt hundrað fjörutíu og átta, fimmtánda xantíkkusmánaðar.“

Highlight

Share

Copy

None

Want to have your highlights saved across all your devices? Sign up or sign in